143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Mjög alvarleg tíðindi felast í niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem var kynnt í dag. Það er mjög nauðsynlegt að við tökum þessar niðurstöður alvarlega og horfumst í augu við þær. Þær sýna að þegar kemur að lestri, reikningi og náttúruvísindum erum við alls staðar fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna og erum t.d. í lestrinum að nálgast hóp ríkja sem við gerum kröfu um að mikið bil sé á milli okkar og þeirra þegar kemur að lestri.

Sérstaklega er það mikið áhyggjuefni að sjá að 30% drengja skuli við lok grunnskólans ekki geta lesið sér til gagns. Þetta er ekki sama og þeir séu ólæsir en þeir geta ekki lesið sér til gagns. Það er hörmuleg staða fyrir þessa einstaklinga. Það er ekki gott veganesti út í lífið að vera í þessum sporum. En þetta er ekki bara vandamál þeirra, þetta er vandamál samfélagsins alls. Við þurfum að fara vel í gegnum menntakerfi okkar. Við þurfum að skoða menntun kennaranna og við þurfum að skoða inntak hennar. Við þurfum að skoða kennsluaðferðirnar. Við þurfum að skoða kennsluefnið. Það þarf að fara í gegnum þetta allt saman og komast að því hvar vandi okkar liggur því að hann er ærinn.

Það er líka rétt að horfa til þess að ýmislegt er gott í menntakerfi okkar. Það er ánægjulegt og gott að það skuli koma fram að krökkunum líður betur í skólanum en áður. Það er gott og jákvætt að dregið hafi úr einelti. Við eigum að byggja á þessum þáttum, horfast í augu við vandann og koma fram með lausnir.

Ég hef allt frá því í sumar unnið að gerð hvítbókar þar sem tveir þættir eru undir. Annars vegar að bæta framhaldsskólann og hins vegar aðgerðir til að bæta árangur okkar í lestrarkennslunni. Ég mun funda á næstu dögum með öllum þeim sem eru í forsvari fyrir menntakerfið og hef reyndar hafið þá fundi nú þegar til að fara yfir þessar niðurstöður og til að kynna um leið líka þær hugmyndir sem ég hef um úrbætur. Ég mun væntanlega láta prenta þessa hvítbók í janúar og kynna hana á fundum (Forseti hringir.) eins og ég get.

Virðulegi forseti. Ég vil beina því til yðar hvort það sé möguleiki að ég fái að flytja hér munnlega skýrslu um þetta mál við fyrstu hentugleika.