143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

visthönnun vöru sem notar orku.

187. mál
[14:05]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 235, frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/125/EB, um visthönnun, að því er varðar orkutengdar vörur en innleiðing þeirrar tilskipunar kallar á breytingu á fyrrnefndum lögum, nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku. Núgildandi lög um visthönnun vöru byggja á forvera tilskipunar 2009/125/EB og voru þau á sínum tíma sett til innleiðingar á henni.

Margar orkutengdar vörur búa yfir möguleikum til að ná fram orkusparnaði með betri hönnun. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að stuðla að því að hönnun á vörum sem tengjast orkunotkun verði með þeim hætti að viðkomandi vara nýti orkuna sem best og dragi þannig úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið. Tilskipunin myndar ákveðinn ramma til að setja fram kröfur um visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur. Tilskipuninni er einnig ætlað að tryggja samræmdar reglur og frjálst flæði slíkra vara inn á innri markaði Evrópusambandsins og að vörunni fylgi viðeigandi upplýsingar um visthönnun til hagræðingar fyrir neytendur. Því er bæði um neytendamál og orkumál að ræða.

Efnislega eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu tvíþættar: Fyrra atriðið snýr að gildissviði laganna. Núgildandi lög nr. 42/2009 gilda um vörur sem nota orku með beinum hætti, t.d. ísskápar eða þvottavélar, en verði frumvarpið að lögum munu lögin jafnframt gilda um vörur sem eru orkutengdar eða ef ég má, með leyfi forseta, bregða fyrir mér enskri tungu, „energy-related products“, sem er eins og áður segir þýtt sem orkutengdar vörur. Með því verður gildissvið laganna víðtækara. Með orkutengdum vörum er þannig átt við t.d. glugga og einangrunarefni þar sem með betri hönnun má ná fram orkusparnaði.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að eftirlit með framkvæmd laganna um visthönnun vöru verði alfarið í höndunum á Neytendastofu en ekki skipt á milli Neytendastofu og lögreglu eins og nú er. Eftirlit með lögum nr. 42/2009 hefur ekki þótt nægilega skýrt og talið óþarfi að skipta eftirlitinu á milli Neytendastofu og lögreglunnar. Með frumvarpinu eru Neytendastofu fengin úrræði í samræmi við þau sem hún hefur í öðrum lögum til að tryggja að eftirlitið fullnægi kröfum sem gerðar eru í tilskipuninni

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi frekar en núgildandi lög mikil áhrif á íslenska framleiðendur þar sem framleiðsla fárra innlendra framleiðenda fellur undir ákvæði frumvarpsins. Hins vegar hefur frumvarpið áhrif á neytendur þar sem það leggur ákveðna kröfur á framleiðendur á EES-svæðinu varðandi upplýsingaskyldu um orkunotkun viðkomandi vöru.

Frumvarpið er samið í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Neytendastofu sem fer með markaðseftirlit og framkvæmd laga nr. 42/2009, um visthönnun vöru. Haft var samráð við hagsmunaaðila við gerð þess.

Í kostnaðarumsögn við frumvarpið kemur fram að verði frumvarpið að lögum er ekki ráðgert að það hafi í för með sér aukningu í útgjöldum ríkissjóðs þó að það kunni að fela í sér einhverjar auknar eftirlitsskyldur af hálfu Neytendastofu.

Herra forseti. Með frumvarpinu er fyrst og fremst um að ræða ákveðna útvíkkun á gildissviði núgildandi laga frá 2009 um visthönnun vöru sem og breytingu á hlutverki Neytendastofu varðandi eftirlit með þeim lögum.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og til 2. umr.