143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Í því er að finna tillögur um breytingar í sjö liðum.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum er varða skattlagningu afleiðuviðskipta. Gildandi tekjuskattslög hafa ekki að geyma sjálfstæð ákvæði um skattalega meðferð slíkra viðskipta og hefur skattframkvæmdin því byggst á þeirri túlkun skattyfirvalda á almennum ákvæðum tekjuskattslaganna að tekjur af afleiðuviðskiptum beri að meðhöndla sem eitt form vaxtatekna. Í þessu frumvarpi er lögð til sú breyting á gildandi ákvæðum skattalaga að litið verði á tekjur af afleiðusamningum sem söluhagnað, eftir atvikum sem sölutap, í stað vaxtatekna/vaxtagjalda að undanskildum vaxtaskiptasamningum sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti. Í nágrannalöndunum er ávöxtun afleiðusamninga meðhöndluð með sambærilegum hætti og lagt er til í frumvarpinu.

Í öðru lagi er lagt til að stofnanir eða félög í meirihlutaeigu ríkis og/eða sveitarfélaga sem falin hafa verið lögbundin verkefni vegna rekstrar vatnsveitu og/eða fráveitu verði undanþegin tekjuskatti að því leyti sem þau sinna þessum verkefnum enda séu þau að fullu aðgreind bókhaldslega frá annarri starfsemi bæði varðandi rekstur og efnahag.

Rekstur vatnsveitna og fráveitna hefur í gegnum tíðina verið í höndum sveitarfélaga, en sveitarfélögin bera ábyrgð á slíkum rekstri eða að þessum rekstri sé sinnt. Slíkur rekstur er ekki tekjuskattsskyldur þegar sveitarfélög hafa hann með höndum.

Samkvæmt vatnsveitulögum og fráveitulögum hafa sveitarfélög hins vegar heimild til þess að fela stofnun eða félagi sem er að meiri hluta í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga rekstur vatnsveitna og fráveitna en þá taka slíkir aðilar að sér réttindi og skyldur sveitarfélaga samkvæmt lögunum. Hafa slíkir samningar færst í aukana.

Ákveðin óvissa hefur ríkt um það að hvaða marki rekstur vatnsveitna og fráveitna er tekjuskattsskyldur þegar sveitarfélög hafa falið orkufyrirtækjum slíkan rekstur. Breytingin sem hér er lögð til er talin nauðsynleg vegna rekstrarfyrirkomulags þeirra stofnana og félaga sem taka að sér slíkan rekstur enda gerir hún þeim kleift að reka fleiri en eina tegund starfsemi í sama félagi.

Vegna kröfu um fullan bókhaldslegan aðskilnað hinnar undanþegnu starfsemi er talið tryggt að hinn skattskyldi hluti muni ekki geta nýtt sér slíkt samstarf þegar til skattlagningar kemur. Sá stofn eða hagnaður sem hér um ræðir hefur fram til þessa verið skattfrjáls og þar með verður ríkissjóður ekki af tekjum við breytinguna.

Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott þau ákvæði laganna er kveða á um að arðsúthlutun umfram 20% af skattalega bókfærðu eigin fé hlutafélags skuli skattlögð til helminga sem launatekjur og arður þegar um er að ræða einstaklinga sem skylt er að reikna sér endurgjald. Um er að ræða sérreglu sem almennt hefur verið kölluð 20/50-reglan sem ekki hefur reynst sem skyldi og verið gagnrýnd af ýmsum aðilum frá gildistöku hennar. Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að því að reglan stuðli að því að fyrirtæki skipti um rekstrarform eða hætti við úthlutun arðs í þeim eina tilgangi að komast hjá því að beita reglunni. Einnig hefur reglan verið gagnrýnd fyrir það að litið er fram hjá því hvað það er í félögum sem skapar raunverulegan hagnað. Samkvæmt núgildandi reglu er skylt að skattleggja arðsúthlutun að hluta sem laun óháð því hvort arðurinn hafi myndast vegna vinnuframlags eða vegna annarra þátta, svo sem vegna tekna sem skapast af hugverkaréttindum. Þá er ekki litið til þess í núgildandi reglum hvort hagnaður hafi myndast á löngum tíma eða stuttum.

Ef hagnaður hefur myndast á löngum tíma án þess að arðsúthlutun hafi farið fram getur verið ósanngjarnt að skattleggja arðsúthlutun umfram 20% af skattalega bókfærðu eigin fé sem launagreiðslur að hluta. Samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu verður farið í endurskoðun á reglum um reiknað endurgjald sem ættu að draga úr tekjulækkun ríkis og sveitarfélaga af breytingunni.

Í fjórða lagi er lögð til breyting í þá veru að bætt verði við lögin ákvæðum er taka til skattalegrar meðferðar við samruna hlutafélaga yfir landamæri. Tillagan sem felur í sér frestun eða dreifingu á greiðslu tekjuskatts sem kann að myndast við samruna um fimm ár, í stað greiðslu strax við samrunann, er til komin vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og nýgengins dóms EFTA-dómstólsins þar sem Ísland er talið hafa brotið gegn ákvæðum Evrópska efnahagssamningsins með því að mismunandi reglur gilda um skattalega meðferð við samruna hlutafélaga innan lands og yfir landamæri.

Samruni hlutafélaga sem skráð eru hér á landi hefur ekki í för með sér skattskyldu fyrir hluthafa og samrunafélögin, enda hafi verið staðið að samrunanum í samræmi við ákvæði tekjuskattslaga. Þannig kveður ákvæðið á um að samruni sem eingöngu er fólginn í algjörum samruna fjármuna og eigin fjár með skiptum á hlutabréfum en engum öðrum greiðslum til hluthafa leiði ekki til skattskyldu. Raunveruleg eignaaukning sem kann að eiga sér stað við slíkan samruna kemur þannig fyrst til skattlagningar við slit félags eða í formi söluhagnaðar við sölu hlutabréfa í hinu nýja félagi ef svo ber undir. Félagið sem eftir stendur yfirtekur við samrunann öll skattaleg réttindi og skyldur eldra félagsins.

Skattyfirvöld hafa túlkað ákvæðið á þann veg að það eigi eingöngu við í tilviki innanlandssamruna, enda var millilandasamruni félaga ekki heimill samkvæmt félagarétti þegar ákvæði tekjuskattslaga var lögfest. Þegar millilandasamruni félaga var síðar heimilaður að félagarétti stóðu ákvæði tekjuskattslaga óbreytt. Því hefur ákvæðið einungis verið talið eiga við í þeim tilvikum þegar um er að ræða hérlend hlutafélög sem renna saman við önnur hlutafélög hér á landi. Ef hins vegar væri um að ræða íslenskt hlutafélag sem rynni saman við annað hlutafélag þvert á landamæri er, eins og fyrr segir, talið að ákvæði tekjuskattslaga taki ekki til þeirra tilvika og yrði farið með slíkan samruna sem slit á hinu yfirtekna félagi með tilheyrandi uppgjöri á söluhagnaði/tapi þeirra eigna sem yfirteknar yrðu við samrunann og vegna úttektar hluthafa úr félaginu. Samhliða því færi fram tekjuskattslagning á þeim hagnaði sem kann að myndast sem kæmi til greiðslu án tafar.

Í frumvarpinu er lagt til að við samruna hlutafélags yfir landamæri, við hlutafélög í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum verði lagður tekjuskattur á óinnleystan hagnað sem til hefur orðið hér á landi eins og verið hefur en veittur allt að fimm ára greiðslufrestur á skattinum sé þess óskað. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er tryggður, eins og verið hefur, skattlagningarréttur Íslands á óinnleystum hagnaði sem myndast hefur í rekstri hér á landi. Þessi skattalega meðferð er í samræmi við þær reglur sem nágrannaríki okkar hafa talið nauðsynlegt að lögfesta til að tryggja skattlagningarrétt sinn og koma eftir atvikum í veg fyrir skattsniðgöngu.

Í fimmta lagi er lagt til að lögfest verði sérstök ákvæði um milliverðlagningu ásamt skilgreiningu á tengdum lögaðilum og reglum um skjölun. Verðlagning sem hér um ræðir skiptir miklu í viðskiptum alþjóðlegra fyrirtækja, en slíkum fyrirtækjum fer sífellt fjölgandi hér á landi. Að baki tillögum frumvarpsins liggja viðmiðunarreglur OECD um milliverðlagningu en þær eru viðurkenndar um allan heim.

Í íslenskum skattalögum er ekki að finna sértækar milliverðlagningarreglur heldur hefur almennu ákvæði í tekjuskattslögum verið beitt þegar upp hafa komið skattaleg álitamál um verðlagningu og/eða skilmála í viðskiptum milli tengdra aðila. Hafa hagsmunaaðilar og skattyfirvöld lengi óskað eftir skýrari lagareglum á þessu sviði.

Á grundvelli milliverðlagningarreglna er skattyfirvöldum heimilt að gera leiðréttingar á skattskilum tengdra aðila þegar verðlagning og/eða skilmálar í viðskiptum eða fjárhagslegar ráðstafanir þeirra eru frábrugðnar því sem ætla mætti að hefði verið í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila. Slíkar milliverðlagningarreglur byggja á armslengdarsjónarmiðum og taka meðal annars til verðs á vörum, þjónustu og hvers kyns fjármálagerningum, þar með talið ákvörðun vaxta. Um hvers konar viðskipti með rekstrarleg aðföng og varanleg eignakaup getur verið að ræða, hvort heldur þau eru ætluð til notkunar við tekjuöflun, sem fjárfesting eða dreifing áhættu. Þegar viðskipti eiga sér stað milli tengdra aðila er ekki tryggt að kjör og skilmálar ráðist af markaðslegum forsendum þar sem aðrar forsendur, svo sem skattalegar, geta staðið að baki ráðstöfunum og ákvörðun um milliverðlagningu getur leitt til skattsniðgöngu.

Verðákvörðun í viðskiptum tengdra aðila, sem skráðir eru hver í sínu ríki, getur þannig haft bein áhrif á þann skattstofn sem ríkin fá til skattlagningar. Sömuleiðis er hægt að hafa áhrif á skattstofna lögaðila í viðskiptum innan lands milli tengdra aðila.

Með frumvarpinu er sett fram sérstök skilgreining á því hverjir teljast tengdir lögaðilar samkvæmt tillögum frumvarpsins. Lögaðilar teljast tengdir þegar beint eða óbeint eignarhald eins lögaðila yfir öðrum fer yfir 50% og/eða stjórnunarleg yfirráð eru fyrir hendi með öðrum hætti. Þá teljast lögaðilar einnig tengdir þegar meirihlutaeignarhald eins lögaðila yfir öðrum er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti. Ákvæðinu er einnig ætlað að taka til innbyrðis viðskipta innan félagasamstæðu. Þá geta sameiginlegir hagsmunir verið til staðar í gegnum sifjaréttarleg eða viðskiptaleg tengsl einstaklinga.

Samkvæmt tillögum frumvarpsins er lögaðili skjölunarskyldur vegna viðskipta við tengda lögaðila ef rekstrartekjur hans á einu reikningsári eða heildareignir í upphafi eða við lok reikningsárs nema meira en 1 milljarði króna. Þannig skal skjölunarskyldur lögaðili skrá og varðveita upplýsingar um eðli og umfang viðskipta við tengda lögaðila, eðli tengsla og grundvöll ákvörðunar milliverðs, upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu, eignir og annað sem þýðingu kann að hafa við milliverðlagninguna og sýna fram á verð og skilmála í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila eða hvernig verðlagningu er háttað með tilliti til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu. Lögaðili skal staðfesta skjölunarskyldu við framtalsskil og að fullnægjandi skjölun hafi átt sér stað.

Megináhrif af fram komnum tillögum felast í skýrari og gagnsærri reglum fyrir lögaðila og skattyfirvöld, auk þess sem ákveðið hagræði verður við það að íslenskt regluverk samræmist reglum nálægra ríkja, ekki síst út frá samkeppnissjónarmiðum. Minni líkur verða líka á tvískattlagningu og sönnunarbyrði lögaðila fyrir ákvörðun milliverðs er auðvelduð, m.a. með lögfestingu skjölunar, þó svo að ákveðin reglubyrði felist í því fyrir lögaðila sem undir hana falla.

Í sjötta lagi er lögð til sú breyting að færa reglu þá er kemur fram í ákvæði L (50) til bráðabirgða við tekjuskattslög í meginmál laganna, en ákvæðið fjallar um fyrirframgreiðslu á álögðum sérstökum fjársýsluskatti árið 2012. Er við það miðað að ekki skuli taka tillit til samsköttunar og yfirfæranlegs taps við álagningu hans ár hvert vegna sérstöðu skattsins.

Í sjöunda lagi er lögð til breyting á því hvenær eindagi skuli vera vegna greiðslu tekjuskatts af öðrum tekjum en launatekjum sem felur í sér betra innra samræmi í lögum um tekjuskatt og ætti að vera til einföldunar og aukins skýrleika, bæði fyrir skattaðila og þá opinberu aðila sem sinna innheimtu.

Virðulegi forseti. Verði frumvarpið að lögum eru fjárhagsleg áhrif þess á afkomu ríkissjóðs talin óveruleg. Ef áhrifin verða einhver er þó líklegra að þau verði jákvæð fyrir ríkissjóð en hitt en erfitt er að meta umfang þess. Kostnaður við skattframkvæmd mun aukast eitthvað þegar á heildina er litið verði frumvarpið óbreytt að lögum en þó er ekki ástæða til að ætla að það verði umfram það sem rúmast ætti innan fjárheimilda viðkomandi stofnana.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.