143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það innlegg sem hefur komið frá hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls og rakið nokkur álitamál sem tengjast einstaka þáttum frumvarpsins. Eins og glöggir menn sjá er þetta nokkuð stórt frumvarp, þ.e. það eru nokkuð mörg innbyrðis óskyld mál sett á dagskrá. Þau eiga sér kannski hvert sinn aðdragandann. Að hluta til er hér verið að byggja á vinnu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og fyrir liggja skýrslur starfshópa um tillögur til breytinga. Það á til dæmis við um tillögurnar sem tengjast breyttum skattareglum í tengslum við afleiðuviðskiptin. Það efnislega atriði kom til þingsins á síðasta þingi, þ.e. síðastliðinn vetur, og á endanum varð það niðurstaða meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að afgreiða það mál ekki að sinni. Ég legg málið aftur hér inn til þingsins til frekari skoðunar og mælist til þess að þetta atriði verði afgreitt, enda er þar verið að færa íslensku löggjöfina til samræmis við það sem gildir í nágrannaríkjum. Þegar menn skoða þann þátt frumvarpsins nánar munu þeir sjá að upp koma býsna ósanngjörn tilvik í framkvæmd sem ástæða er til að bregðast við. Í því sambandi er nærtækt að horfa til þess hvernig meðferð í skattalegu tilliti getur verið gjörólík ef slík viðskipti eiga sér stað á kennitölu einstaklings eða inni í hlutafélagi.

Varðandi ýmis önnur atriði málsins get ég sagt um 20/50-regluna sérstaklega að ástæða var til að bregðast við á sínum tíma vegna þeirrar þróunar sem hafði átt sér stað af því að það voru klárlega til staðar skattalegir hvatar til þess að færa einkarekstur inn í hlutafélag vegna þess hvernig samanlögð áhrif af skattlagningu arðs og tekjuskatts hlutafélaga voru samanborið við tekjuskatt einstaklinga.

Það hefur dregið mjög úr þeim mun í millitíðinni og miðað við skattareglurnar eins og þær eru í dag hvað þau atriði varðar er þessi sami hvati ekki lengur til staðar. Það bætist við reynsluna af framkvæmd reglunnar eins og hún er nú í lögunum, sem hefur ekki verið góð, og í framsögu minni þegar ég mælti fyrir frumvarpinu áðan fór ég yfir nokkur atriði sem ber einnig að hafa í huga í því sambandi, svo sem þegar hagnaður hefur myndast yfir langt tímabil sem er verið að greiða út arð fyrir.

Varðandi önnur atriði frumvarpsins fagna ég fram komnum athugasemdum sem ég treysti að verði teknar til skoðunar í nefndinni þar sem vonandi gefst tækifæri til þess að fá sem flestar umsagnir. Ég beini því til nefndarinnar að reyna að hraða eins og kostur er vinnu við málið enda eru gildistökuákvæðin í frumvarpinu þannig að það varðar nokkru hvort málið tefst fram yfir áramót eða ekki. Auðvitað vonast ég til að þrátt fyrir að málið sé tiltölulega seint fram komið muni tíminn reynast nægjanlegur. Þar verður þingið að fá að ráða ferðinni þegar upp er staðið.

Við erum í þessu frumvarpi að horfa til alþjóðlegra viðmiða um mörg atriði, eins og þetta sem snertir milliverðlagninguna. Síðan eru þarna nokkur praktísk atriði. Eins og fram kom í ræðunni áðan eru fjárhagslegu áhrifin á ríkissjóð óveruleg en ég tel að málið í heild sinni mundi vera mjög til bóta fyrir skattkerfið.