143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég innti hæstv. ráðherra eftir afstöðu sinni til þess að við tækjum inn í skattalögin reglur um þunna eiginfjármögnun og hæstv. ráðherra brást ekki við því eða svaraði því ekki. Kannski hefur hann ekki heyrt þann kafla ræðu minnar eða ekki neitt af henni.

Ég tel að samhliða því að við tökum upp reglur um milliverðlagningu, sem ég tel framfaraskref, sé eðlilegt að skoða og eftir atvikum taka afstöðu til þessa: Er þá ekki líka tímabært og þótt fyrr hefði verið, að mínu mati, að við tökum líka upp reglu um þunna eiginfjármögnun í samskiptum móður- og dótturfélaga þannig að við setjum tilteknar reglur, tiltekinn grunn undir slík samskipti svo að þar séu ekki opnar hjáleiðir fyrir óeðlilegan flutning á arði eða hagnaði undan skattarétti á Íslandi og yfir í erlend móðurfélög? Þar er tvímælalaust gat í löggjöfinni eins og hún er og hefur lengi verið hjá okkur. Að mínu mati er það sú brotalöm sem enn á eftir að kippa í liðinn. Eftir að svonefndar CFC-reglur komu inn í skattaréttinn hér 2010 eða svo er betur fyrir því séð í þeim tilvikum varðandi rétt til að samskatta móðurfélög hér á landi og dótturfélög á aflandssvæðum sem illu heilli var ekki til staðar í íslenskri löggjöf á árunum fyrir hrunið og hefði gefið myndarlegar tekjur ef menn hefðu haft þau ákvæði í lögum þá og beitt þeim. Í þessu tilviki er að mínu mati enn eftir að botna málið. Ég hefði helst viljað heyra að hæstv. fjármálaráðherra væri sáttur við það að efnahags- og viðskiptanefnd skoðaði frumvarp sem liggur í nefndinni um það samhliða og tæki það til umfjöllunar tengt þessum breytingum á milliverðlagningarreglunum þó að þær séu vissulega aðeins aðrir hlutir en það liggur beint við að skoða þetta saman.