143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst að sjálfsögðu eðlilegt að nefndin taki hugmyndir um þunna eiginfjármögnun til skoðunar í nefndinni, enda fram komið frumvarp um það mál. Það sem mér finnst almennt að mönnum beri að varast varðandi skattareglur innan samstæðu er að gera nokkuð sem kann að þvælast fyrir erlendri fjárfestingu í landinu og eins að breyta skattareglum ekki þannig að það birtist á endanum í hærri vaxtakostnaði, sem mér fannst til dæmis eiga við um tilraunir til þess að leggja hér á sérstakan afdráttarskatt vegna vaxtagreiðslna, en mér sýnist að hugmyndirnar um þunna eiginfjármögnun séu ekki af alveg óskyldum toga. Þó vil ég ekki gera lítið úr því að óásættanlegt er fyrir okkur á Íslandi ef alþjóðleg fyrirtæki leggja mikið á sig og finna glufur í skattareglunum hér á landi til þess að taka til sín raunverulega allan ábata af starfseminni á Íslandi og eyða öllum skattstofnum með einhverjum æfingum á efnahagsreikningum. Það hlýtur að vera hægt að ganga út frá því að ávallt sé til staðar eitthvert lágmarks eigið fé inni í dótturfélögum slíkra alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi sem ætti þá að vera grundvöllur undir starfseminni og þannig væri fyrirtækið ekki utan seilingar skattyfirvalda í landinu, ef svo má að orði komast.

Það hins vegar hvernig alþjóðleg fyrirtæki kjósa (Forseti hringir.) að fjármagna dótturfélög sín á Íslandi á alþjóðlegum lánamörkuðum eða (Forseti hringir.) innan samstæðu getur ekki — við þurfum að fara varlega í að hafa úrslitavald eða -áhrif á það með skattareglum.