143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið svo langt sem það nær. Ég heyri að hann hefur alveg skilning á vandamálinu, áttar sig á því hvaða leiðir eru opnar þar og er að sjálfsögðu ekki sáttur við að skattstofnar hverfi hér alveg undan okkar skattalögsögu með því að menn noti slíkar aðferðir.

Varðandi hins vegar það að við innleiðum hér reglur sem eru meira og minna orðnar alsiða í öðrum löndum, að það hafi fælandi áhrif á erlenda fjárfestingu, ég mundi alveg snúa því við og segja: Er það þannig sem við höfum áhuga á því að laða að erlenda fjárfestingu, að vera með eitthvað frábrugðna skattareglur því sem er almennt við lýði annars staðar? Nú man ég það ekki nákvæmlega eða þekki en ég hygg að Ísland sé orðið í tiltölulega fámennum hópi sem ekki hefur neinar reglur af þessu tagi í skattalögum sínum.

Hér er verið að byggja á alþjóðlegum og viðurkenndum viðmiðum, samanber enska heiti fyrirbærisins „thin capitalisation rules“. Þetta þekkja allir, er alsiða í skattareglum annarra landa, og ég held að við hljótum að þurfa, að sjálfsögðu, að búa hér samkeppnisfært umhverfi en ekki í þeim skilningi að við höfum frábrugðnar skattareglur okkur í óhag borið saman við það sem almennt gengur og gerist.

Það eru reyndar líka fleiri sjónarmið alveg gild í þessu en bara þau ein að tryggja að skattskyldur hagnaður hverfi ekki með óeðlilegum hætti úr landi í gegnum svona samskipti móður- og dótturfélaga. Það er auðvitað keppikefli í sjálfu sér að þau félög sem hér byggjast upp og starfa séu vel fjármögnuð, eðlilega fjármögnuð, að sjálfsögðu skiptum við okkur ekki af því hvernig móðurfélagið tryggir að starfsemi þess í dótturfélagi hér á landi sé fjármögnuð heldur að það sé gert með eðlilegum hætti þannig að að lágmarki sé til að tryggja að viðkomandi aðili sé raunverulegur skattaðili í landinu en ekki bara skúffa.