143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tollalög o.fl.

205. mál
[15:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á tollalögum nr. 88/2005, lögum um vörugjald, nr. 97/1987, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989.

Breytingarnar á tollalögunum fela í fyrsta lagi í sér að sektarheimild tollstjóra verði hækkuð úr 300 þús. kr. í 600 þús. kr., í öðru lagi að hámarksverðmæti eignar sem gera má upptæka vegna brota á ákvæðum tollalaga verði hækkað úr 300 þús. kr. í 600 þús. kr. og í þriðja lagi er lagt til að tollstjóra verði heimilt að innheimta eftirlitsgjald vegna eftirlits með afgreiðslu- og tollvörugeymslum með sama hætti og heimilt er að innheimta gjald vegna eftirlits með öðrum geymslum fyrir ótollafgreiddan varning.

Hækkun sektarheimildar tollstjóra skapar meira hagræði milli embættis tollstjóra og lögreglustjóra. Með hækkun sektarheimildarinnar er unnt að ljúka fleiri málum hjá tollstjóra án aðkomu lögreglunnar þegar sektarþoli sættir sig við þau málalok. Rétt er að fram komi að tollstjóra er aðeins heimilt að ljúka málum með sektargerð ef sökunautur játast undir þá ákvörðun og greiðir sektina þegar í stað. Sé sökunautur ekki sáttur við þau málalok hefur tollstjóri það úrræði að kæra málið til lögreglu. Breytingin ætti því að minnka álag á lögreglu. Upphæð sektarheimildarinnar hefur staðið óbreytt í tollalögum frá árinu 2002 og hámarksupphæð hlutar sem gera má upptækan að sama skapi síðan 1996. Brýnt er því orðið að hækka þessar fjárhæðir í takt við almennt verðlag eigi ákvæðin að ná tilgangi sínum.

Sú breyting sem lögð er til varðandi eftirlitsgjald vegna eftirlits með afgreiðslu- og tollvörugeymslum, eins og nú er heimilt að innheimta vegna annarra geymslna fyrir ótollafgreiddan varning, er talin löngu tímabær. Stærstur hluti ótollafgreidds varnings sem fluttur er inn til landsins er geymdur í afgreiðslu- og tollvörugeymslum. Er því afar mikilvægt að heimilt sé að innheimta eftirlitsgjald vegna eftirlits með sama hætti og gildir um eftirlit með forðageymslum, tollfrjálsum verslunum og umflutningsgeymslum.

Breytingin sem lögð er til á vörugjaldslögum miðar að því að innlendir framleiðendur fái allir sama möguleika á endurgreiðslu vörugjalds vegna vara sem seldar eru án vörugjalds til skráðra aðila samkvæmt 5. gr. laganna. Eins og framkvæmdin hefur verið samkvæmt gildandi lögum hefur gjaldið í einhverjum tilvikum verið innheimt tvisvar sem er ekki markmið laganna.

Breytingarnar á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur eiga að leysa úr þeirri réttaróvissu sem ríkir um innheimtu skilagjalds við sölu í komuverslun á Keflavíkurflugvelli. Endurvinnslan sér um umsýslu samkvæmt ákvæðum laganna, jafnt móttöku umbúðanna, förgun þeirra og greiðslu á skilagjaldinu. Fyrirtækið hefur bent á að skilagjald vegna drykkjarvara í einnota umbúðum sem seldar eru í komuverslun á Keflavíkurflugvelli hefur ekki skilað sér til félagsins á sama tíma og það greiðir skilagjald til almennings þegar umbúðum þessara drykkjarvara er skilað til endurvinnslu. Af þessum sökum verður félagið fyrir tjóni enda er misræmi milli þess skilagjalds sem félagið fær greitt og þess sem það greiðir út.

Með breytingu þeirri sem lögð er til í frumvarpinu verður þeim sem hafa leyfi til að selja farþegum og áhöfnum millilandafara vörur úr tollfrjálsri verslun við komu til landsins falið að leggja á og greiða skilagjald af gjaldskyldum vörum samkvæmt lögunum.

Að lokum er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæðum um að hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda, vörugjalda og virðisaukaskatts í greiðslufresti vegna uppgjörstímabila á árinu 2014 verði dreift á tvo gjalddaga. Sambærileg regla hefur verið í gildi nokkur undanfarin ár.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.