143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru að loknum þessum þingfundi aðeins níu þingfundadagar eftir fram að jólum. Í hv. fjárlaganefnd er verið að undirbúa 2. umr. fjáraukalagafrumvarpsins sem kom afskaplega seint inn. Starfsmenn hv. fjárlaganefndar þurfa að leita 30 ár aftur í tímann til að finna annað eins. Og breytingartillögur ríkisstjórnarinnar eru ekki komnar vegna 2. umr. fjárlaga. Við eigum á þessum níu þingfundadögum eftir að fara í gegnum 2. og 3. umr. fjáraukalaga, 2. og 3. umr. fjárlaga, við eigum eftir að ræða forsendur tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins og síðan hefur verið rætt um að hingað inn komi frumvörp vegna niðurfellingar verðtryggðra húsnæðislána.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hann hyggist gera breytingar á starfsáætlun eða hvort hann telji að við náum öllum þessum stóru verkefnum á svo stuttum tíma.