143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega með ólíkindum, hv. formaður fjárlaganefndar Vigdís Hauksdóttir, að þetta skuli sagt. Hér hafa fundir ítrekað fallið niður. Nefndarmenn utan af landi voru boðaðir í bæinn á sunnudaginn vegna þess að þeir þurftu að vera mættir kl. 9 á mánudagsmorgun — en það var enginn fundur. Hann féll niður. Síðan var boðað til fundar með einu ráðuneyti síðdegis. Þannig eru vinnubrögðin.

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir var hér með afskaplega málefnalega fyrirspurn til forseta um þinghaldið fram undan. Það er alveg óhætt að velta fyrir sér hvort við náum öllum þeim málum sem við þurfum að ná hér í gegn á þessum tíma. Það er enginn í skotgröfum eða með leiðindi eða eitthvað slíkt. Þetta er bara ósköp eðlileg spurning. Þetta eru mjög viðamikil mál. Breytingartillögur eru ekki komnar fram. Það eru nefndadagar á fimmtudag, föstudag og mánudag,. Við vitum ekkert hvenær þessar breytingartillögur koma inn. Verði þær ekki komnar inn fyrir helgi er afar hæpið að hafa (Forseti hringir.) nefndadag á mánudag. Þá væri æskilegt að það yrði bara þinghald og nefndadegi frestað.