143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða, að gefnu tilefni, starfsumhverfi fjárlaganefndar og það hvernig staðan í þeirri nefnd og vinnan sem þar fer fram hefur beint og óbeint áhrif á starfsáætlun þingsins. Er það ekki allt í lagi? Má ekki ræða það?

Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að þetta var rætt á þingflokksformannafundi á dögunum, þ.e. að því er varðar nefndadagana. Þar var þó ekki rætt um það sem hér hefur verið til umræðu, þá staðreynd að við erum enn með óafgreidda 2. og 3. umr. bæði fjáraukalaga og fjárlaga og það eru bara níu dagar til stefnu miðað við þessa ágætu starfsáætlun. Þá er spurt: Duga þeir dagar? Eða horfum við fram á það að við verðum hér fram á Þorláksmessu og milli jóla og nýárs? Er það áætlunin? Mér finnst full ástæða til að ræða það án þess að menn fari á límingunum.