143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fólk fari ekki á límingunum eins og hér hefur komið ágætlega fram. Spurningin er þessi: Nær hv. nefnd að fara yfir þetta? Já, það er ekkert sem bendir til annars. Stóra málið er, og það er bara beðist velvirðingar á því, að þau mistök urðu að fundurinn var ekki kl. 9 heldur kl. 17.30 og stóð í tvo tíma. Ef það er glæpurinn verðum við bara að biðjast velvirðingar á því.

Þeir sem tala um þetta hafa kannski litla þingreynslu, hafa ekki komið nálægt þingstörfum áður og ekki upplifað annað eins, en þetta er alveg svakalegt. Það kom bara eitt ráðuneyti. Að vísu var það fjármálaráðuneytið sem kemur alltaf fyrst og fer yfir málið, en ég held að það sé alveg hárrétt, við skulum ekki fara á límingunum. Það er engin ástæða til þess og það er ekkert sem bendir til þess að hv. fjárlaganefnd nái ekki að fara vel yfir málin. Hún fór ágætlega yfir málin með þrem ráðuneytum í morgun og mun halda því áfram í fyrramálið.