143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég er nýgræðingur í þessum sal en verð að viðurkenna að þessi umræða kemur mér ögn á óvart. Jú, mikil ósköp, það er mikilvægt að við höldum starfsáætlun þingsins. En ég spyr: Er okkur eitthvað að vanbúnaði að vinna lengur en til 19. desember? Öll alþýða manna vinnur alveg fram á aðfangadag þannig að ég veit ekki hvað okkur er að vanbúnaði við að taka til hendinni.

Það vill svo til að frumvörp koma heldur seinna fram en verið hefur, en ég segi aftur: Er okkur einhver vorkunn að takast á við það? Ég skil það ekki. Geta menn ekki einhent sér í að gera það besta úr þessum aðstæðum, reyna þá að vinna betur saman og klára þessi mál með einhverjum sóma? Sjálfum er mér ekkert að vanbúnaði að vera hér fram á aðfangadag. Ég er vanur því þannig að það er ekki nýjung.