143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, sameignarfélög og fyrirtækjaskrá.

132. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar sem er sameinuð í þessu máli. Nefndin hefur fjallað um málið og fékk til sín gesti úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og frá ríkisskattstjóra. Einnig bárust umsagnir um málið frá helstu aðilum; Samtökum verslunar og þjónustu, Alþýðusambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands.

Frumvarpið gengur út á breytingar á nokkrum lögum, þ.e. lögum nr. 1903, um firmu og prókúruumboð, lögum nr. 59/2007, um sameignarfélög, og lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá. Markmið breytinganna er einfaldlega að firmaskrár þær sem færðar hafa verið hjá sýslumönnum eða sá hluti fyrirtækjaskrár sem færður hefur verið hjá sýslumönnum færist til fyrirtækjaskrár. Með því næst að nýta þá þekkingu og búnað, tölvukerfi og annað sem nú þegar er til hjá fyrirtækjaskrá til að halda utan um skráningu félaga. Það einfaldar almennt skráningu mismunandi félagsforma og samræmir hana. Eftirleiðis verða því firma eins manns, sameignarfélög og samlagsfélög skráð hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eins og önnur félagsform hafa verið fram að þessu eða að undanförnu.

Það kom almennt fram í máli gesta og umsagnaraðila að breytingin væri til einföldunar og hagræðis á landsvísu og tryggði betra samræmi reglna um skráningu félaga.

Nefndin er sammála því mati. Auk þess ætti þetta að bæta þjónustu við viðskiptalífið með einföldun á ferlinu og traustara utanumhaldi. Þá tryggi þetta betur en framkvæmdin hefur gert að undanförnu að skráning sameignarfélaga og samlagsfélaga verði í samræmi við skráningu atvinnurekstrar í öðru félagsformi. Einnig ætti miðlun upplýsinga úr fyrirtækjaskrá, sérstaklega um þau rekstrarform sem þangað færast, að verða öruggari og einfaldari en verið hefur.

Þetta hefur auk þess í sér fólgið það hagræði að í stað þess að þurfa að fara á tvo staði við skráningu, eins og nú hefur verið þegar skrá þarf félag hjá sýslumönnum en sækja síðan um kennitölu hjá fyrirtækjaskrá, verður nú hægt að snúa sér til fyrirtækjaskrár með hvort tveggja.

Nefndin athugaði þau sjónarmið hvort ástæða væri til að ætla að þjónusta yrði lakari við fyrirtæki á landsbyggðinni eða að þar mundi fækka störfum vegna þessara breytinga þar sem skráningin hefur farið fram í hlutastörfum hjá sýslumannsembættum vítt og breitt um landið, en því er til að svara að ríkisskattstjóri er með starfsstöðvar um allt land, einar níu ef ég man rétt. Þar er að sjálfsögðu hægt að skila gögnum. Auk þess er það svo að umrædd skráning er að mestu leyti rafræn og skiptir þá ekki máli í sjálfu sér hvar menn eru staðsettir ef þeir hafa aðgang að því.

Enn má geta þess að langstærstur hluti skráninga af þessu tagi er á höfuðborgarsvæðinu, eða um 75%, þannig að í þeim skilningi færast verkefni ekki af landsbyggð til höfuðborgar.

Rétt er að benda á að almennt voru umsagnir allar jákvæðar og fá ef nokkur rök komu fram sem hægt er að segja að nái máli mæltu gegn þessari breytingu.

Rétt er að benda á að í umsögn skrifstofu opinberra fjármála er áætlað að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra þurfi að bæta við einum starfsmanni til að sinna þeim verkefnum sem flytjast til stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að einhverjir fjármunir komi frá sýslumannsembættum, en þar er um mjög óveruleg starfshlutföll að ræða almennt til fyrirtækjaskrár. Nokkur kostnaðarauki hlýst þó af verkefninu, enda batnar þjónustan væntanlega. Það felst m.a. í því að skráningarformið á öðrum félagsformum verður ítarlegra og nákvæmara en verið hefur til þessa.

Það er niðurstaða nefndarinnar að þessi óverulegi kostnaðarauki sem hlýst af flutningi verkefnisins sé vel réttlætanlegur í ljósi þess ávinnings og hagræðis sem með þessu fæst fyrir alla viðkomandi aðila. Það er eitthvað sem ég geri ráð fyrir að fjárlaganefnd og við gerum ráð fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd að fjárlaganefnd taki til skoðunar hvernig fjárveitingum verður lokað til fyrirtækjaskrár í tengslum við þessar breytingar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Willum Þór Þórsson voru fjarstödd afgreiðslu málsins. Að nefndarálitinu standa hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, sá sem hér talar, framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Margrét Gauja Magnúsdóttir, Elín Hirst og Brynjar Níelsson.