143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er synd að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skuli hverfa á braut vegna þess að það hefði verið ágætt að taka umræðu hér um REI-hneykslið á sínum tíma sem verður náttúrlega fyrst og fremst rakið til afskipta Sjálfstæðisflokksins af þeim geira sem við erum að ræða hér núna, orkumálunum. Sannasta sagna fannst mér ég vera að upplifa gamla tíma á nýjan leik. Það skyldi þó aldrei vera að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur séu saman í stjórn landsins?

Ég ætla að bíða, hæstv. forseti, þar til þeir hafa lokið sinni samræðu hér.

(Forseti (ValG): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða rétt ræðumanns til að hafa orðið.)

Vegna þess að við erum að tala um mjög alvarlegt mál. (JónG: Þetta er viðkvæmni.) Mikil viðkvæmni, segir hv. þm. Jón Gunnarsson, sem ég hefði ekki talið, og trúi því seint, að yrði strangtrúarmaður í að framfylgja skipunum frá Brussel. Það sem við erum að ganga út í núna byggir á tilskipunum þaðan, um uppskiptingu raforkugeirans. Á síðasta kjörtímabili fyrir þetta sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur störfuðu saman gekk maður undir manns hönd í því liði að koma því í gegnum þingið og í gegnum raforkugeirann gegn áliti nánast allra þeirra sem þar störfuðu um að innleiða tilskipunina sem síðan var sett í raforkulög 2003. Ég man ekki eftir forsvarsmanni úr einu einasta raforkufyrirtæki í landinu sem var því hlynntur. Allir vöruðu við því og sögðu að jafnvel bara bókhaldslegur aðskilnaður mundi leiða til hækkunar á verði þjónustu. Það gekk allt saman eftir. Orkuveitan var gegn þessu, Landsvirkjun, allar orkuveitur í landinu voru andvígar þessu en stjórnarmeirihlutinn var staðráðinn í að knýja þetta í gegn.

Í nefndaráliti segir af hálfu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, fulltrúa VG, að hún riti undir álit þetta með fyrirvara og svo ég vitni beint, með leyfi forseta:

„… sem lýtur að því að raforkulög og tilskipun Evrópusambandsins sem þau byggjast á séu ekki í takt við íslenskan raunveruleika. Ekki hefði þurft að uppfylla tilskipunina á sínum tíma auk þess sem bókhaldslegan aðskilnað hefði mátt framkvæma án þess að ganga alla leið með því að skipta orkufyrirtækjum upp. Mikilvægt sé að aðgerðin sem felist í frumvarpi þessu hafi ekki áhrif á framtíð Orkuveitu Reykjavíkur, lánshæfi hennar og kjör hjá lánardrottnum.“

Þetta eru varnaðarorð hv. þingmanns sem sér greinilega fram á hvað stjórnarmeirihlutinn ætlar að gera og er að reyna að hafa vit fyrir mönnum með þessum hætti. Hún vill að málið verði skoðað á nýjan leik og að við frestum því að minnsta kosti að hrinda þessu frumvarpi í framkvæmd og gera það að lögum.

Hvernig stendur á því að Evróputilskipunin í raforkumálum var yfirleitt knúin í gegn? Það er fyrst og fremst á markaðsforsendum. Menn trúðu því að með því að einkavæða og markaðsvæða raforkugeirann mundi það gagnast neytendum í Evrópu almennt. Strangtrúin var með þeim hætti að menn yfirfærðu þetta jafnvel á vatnið. Samkeppni átti að vera samkeppni í vatninu en það var yfirleitt bara ein vatnslögn í hverju húsi og hverju hverfi og nánast hverri borg. Það var aldrei nein samkeppni. Markaðsvæðing vatnsveitnanna hafði hrikalegar afleiðingar í för með sér.

Ég þekki þetta mjög vel, ég fór rækilega í gegnum gögn sem þessu tengjast og sem sýndu fram á að samkeppni á raforkumarkaði gekk ekki heldur eftir eins og menn ætluðu. Alls ekki. Bókstafstrúarmenn hér á landi voru staðráðnir í því að keyra þetta í gegn, gegn áliti nánast allra, líka flokkssystkina hv. þingmanns. Það var harla lítill munur þar á en fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, var staðráðin í að knýja þetta í gegn. Það urðu um þetta mjög langar og strangar umræður í þessum sal. Síðan voru margir sem komu og vitnuðu um þau miklu mistök sem menn höfðu gert á sínum tíma með því að falla á Evróputilskipunina. Ég minnist þess að í þeim hópi var Björn Bjarnason, fyrrverandi hæstv. ráðherra. Hann skrifaði um að þetta hefðu verið mistök. Þetta voru mistök. Við nýttum okkur ekki þær heimildir sem ýmsar aðrar Evrópuþjóðir hafa nýtt til þess að fá undanþágur frá þessum ákvæðum. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að þessi tilskipun er alls ekki í samræmi við íslenskan veruleika. Hún er það ekki.

Ég minnist þess á sínum tíma að heimsækja Orkubú Vestfjarða og var þá í hópi félagsmanna úr BSRB. Við spurðum orkubússtjórann og stjórnendur orkufyrirtækisins hvaða augum þeir litu þessar breytingar. Þeir hlógu við og sögðu: Þetta er náttúrlega bara út í hött.

Við eigum að gera það sem hentar okkur á Íslandi og laga okkar lög og reglur að okkar veruleika, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir bendir á. Þess vegna leyfi ég mér, hæstv. forseti, að fara þess á leit að atvinnuveganefnd taki málið upp að nýju og endurmeti afstöðu sína. Það minnsta sem hægt er að gera er að skjóta þessu máli á frest. Við skulum minnast þess að eigendurnir, Reykjavíkurborg, Borgarbyggð og Akranes, voru á því máli að ekki væri rétt að fara í þennan farveg, það væri ekki gott að fara í þennan farveg. Ég spyr líka fyrir hönd neytenda: Eykur þetta ekki flækjustigið? Kemur þetta til með að færa verðið niður? Ég held ekki. Allar breytingar til þessa í yfirbyggingunni og skipulaginu hafa orðið til þess að færa verðið upp. Einhvern tímann hefði maður heyrt talað um samlegðaráhrif. Er það ekki í tísku að tala um samlegðaráhrif? Eigum við ekki að hlusta á það sem kom frá þessum aðilum, Reykjavíkurborg, Akranesi og Borgarbyggð, þegar þeir lýstu hver hugur þeirra væri raunverulega og vöruðu við þessu? Síðan var komið annað hljóð í strokkinn hjá stjórnendum og eftir það lyppaðist öll mótstaða niður. En hún er ekki búin hér á þingi. Ég er ekki að tala hér fyrst og fremst sem stjórnmálamaður á félagshyggjuvæng stjórnmálanna, ég er líka að tala sem neytandi. Ég leyfi mér bara að tala sem neytandi, sem skattgreiðandi og sem borgunarmaður fyrir þá þjónustu sem þessi fyrirtæki veita. Ég ætlast til þess að þeir sem tala fyrir þessu máli sannfæri mig sem neytanda og skattgreiðanda um að þetta sé mér til hagsbóta. Ég held að þeir geti ekki gert það, ég held að þeir séu að fara að skipunum sem koma sunnan úr Brussel. Menn hefðu átt að þenja sig meira hér um árið þegar slík mál voru uppi á borði. Ég held að þeir hefðu átt að gera það.

En hvers vegna í ósköpunum er verið að fara í þennan farveg með mál gegn áliti frá eigendum á sínum tíma þegar þeir töluðu sem frjálsir menn? Síðan á sér stað eflaust eitthvert pólitískt samspil sem verður til þess að menn ætla að reyna að fara með þetta í gegn. Ég vara við því að það verði gert og mælist til þess að meiri hlutinn hér á þingi og hv. formaður atvinnuveganefndar lýsi vilja til þess að fara varlega í sakirnar í þessu efni.