143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var hástemmd ræða hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Það er alveg hárrétt sem hér var farið yfir, um þetta mál var mikið deilt á sínum tíma og menn skiptust þar ekki endilega í fylkingar eftir flokkum. Um þetta hefur oft verið rætt síðan og það hafa svo sem verið mismunandi skoðanir á því hvort þetta hafi verið til bóta eður ei. Ég kom inn á það þegar ég mælti fyrir nefndarálitinu áðan að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur gert þá úttekt á málinu að hún telji það verða til hagsbóta fyrir neytendur. Það er umdeilanlegt.

Hitt er aftur á móti mjög sérstakt að hér talaði hv. þm. Ögmundur Jónasson sem var ráðherra í ríkisstjórn sem starfaði hér síðustu fjögur árin. Í tvígang kom þetta mál til umfjöllunar í þinginu af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem meðal annars hann sat í og gott ef það var ekki frá ráðherra Vinstri grænna, ég man ekki alveg hver hafði með málaflokkinn að gera í þau tvö skipti sem málið kom inn til hv. atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili, nákvæmlega sama mál. En þá var ákveðið í samstöðu — reyndar gegn ákveðnum mótbárum — árið 2011, að gefa fyrirtækinu tveggja ára frest vegna þeirra aðstæðna á markaði sem gerðu það að verkum að fyrirtækið og forsvarsmenn þess óttuðust hver áhrifin yrðu á fyrirtækið ef þetta yrði látið ganga eftir.

Hvers vegna í ósköpunum beittu ekki þeir hv. þingmenn Vinstri grænna sem sátu í ríkisstjórn því sem þeir eru að fara hér yfir nú? Af hverju fóru þeir ekki í þessa vegferð? Þeir vita það jafn vel og ég að sennilega eru engin fordæmi fyrir því innan EES-samningsins að draga til baka tilskipun sem hefur verið innleidd. Ég veit að minnsta kosti ekki til þess og ég held að það sé rétt hjá mér að það hafi ekki verið gert af hálfu Íslands. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan kom það alveg sérstaklega fram hjá fulltrúum ráðuneytisins þegar þetta var rætt að það er talið ákaflega ósennilegt að við munum geta farið þá leið.

Þannig stendur málið. Það var umdeilt, það var afgreitt, tilskipunin var innleidd. Við getum deilt um hvort hún hafi verið til bóta eða skaða fyrir neytendur og þessi fyrirtæki, en að koma hér upp, setja sig í þessa spekingslegu stöðu og ætla að hafa vit fyrir mönnum eftir að hafa verið sjálfur við stjórnvölinn í fjögur ár er ekkert annað en merki um þann popúlisma sem ræður stundum för í málflutningi hv. þingmanna. Það er bara svoleiðis, því miður.

Af hverju í ósköpunum unnu menn ekki heimavinnuna sína ef þeir voru með svona ofboðslegan sannfæringarkraft fyrir málinu á þeim tíma?