143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vissi alltaf að hv. þm. Jón Gunnarsson væri vandur að virðingu sinni og viðkvæmur fyrir popúlisma og vill ekki að slíkt sé tíðkað hér í þessum sal. Hvers vegna erum við að ræða þetta lagafrumvarp núna, hvers vegna erum við að ræða þetta frumvarp? Vegna þess að það er ekki orðið að lögum, vegna þess að fyrri ríkisstjórn gerði þetta ekki að lögum þótt ýmsir strangtrúarmenn í ESB-fræðum hafi gjarnan viljað knýja þetta í gegn.

Varðandi þann þáttinn að það hafi aldrei gerst að tilskipun Evrópusambandsins hafi ekki verið innleidd er það ekki alls kostar rétt. Þetta er stundum ekki spurning um annaðhvort eða heldur um túlkun og skoðun og endurskoðun á málum með hliðsjón af aðstæðum og hugsanlega breyttum aðstæðum. Ég nefni til dæmis tilskipunina um póstinn sem fyrrverandi ríkisstjórn ákvað að hrinda ekki í framkvæmd að fullu vegna þess að hún ætti ekki við um íslenskar aðstæður. Við vorum ekki ein á báti þar, Norðmenn gerðu hið sama og settu málið í skoðun, en menn eiga ekki að vera svo veikir í hnjáliðunum gagnvart Evrópusambandinu að þeir þori ekki að taka mál upp aftur og endurskoða þau.

Ég ítreka að ástæðan fyrir því að við ræðum þetta mál er einfaldlega sú að það var ekki gert að lögum í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Menn byrjuðu á því að fresta framkvæmdinni og nú erum við að mælast til þess að það verði enn gert og við skoðum hvort við getum ekki fengið undanþágu frá þessari tilskipun. Það er ekki þannig að þótt eitthvað hafi einhvern tímann verið samþykkt í Evrópusambandinu eða hjá hinu Evrópska efnahagssvæði verði aldrei aftur þaðan snúið. Það getur bara ekki verið svoleiðis og á ekki að vera svoleiðis. Menn eiga ekki að hafa þessa afstöðu.