143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[17:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar til að leggja áherslu á eitt atriði í þessari umræðu og hef trú á því að það verði svolítið rætt þegar við höldum þessari umræðu áfram á næstu dögum og vikum, og það er þetta með samkeppnina. Ég tók eftir því hvernig hv. þingmaður talaði um að gera Orkuveitunni kleift að stunda sem fyrirtæki samkeppnisrekstur.

Það er ekkert óskaplega langt síðan menn horfðu til Orkuveitunnar, Vatnsveitunnar, Gvendarbrunna — fyrst við erum stödd hér á þessum stað í landinu — Hitaveitunnar sem þjónustu við landsmenn, þjónustu við fólkið sem byggir þennan hluta landsins, og sama gildir náttúrlega annars staðar.

Síðan varð breyting á. Hún varð á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar, að menn fóru að tala um alla hluti á samkeppnisvísu. Skólanemendur voru skyndilega orðnir viðskiptavinir, sjúklingar viðskiptavinir spítalanna og nú er ekki hægt að tala um Vatnsveituna, Orkuveituna og Hitaveituna á annan hátt en sem samkeppnisfyrirtæki. Við erum að tala um grunnþjónustu í samfélaginu sem á að reyna að veita án þess að fara með hana inn í farveg samkeppni, arðs og gróða o.s.frv. En út á það gekk þessi tilskipun Evrópusambandsins á sínum tíma, að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu þessarar þjónustu, að í stað þess að litið yrði á hana sem þjónustu við fólkið yrði hún arðbær atvinnustarfsemi sem byggði á samkeppni fyrirtækja.

Mér finnst mjög mikilvægt að við hverfum ekki frá þessari grundvallarumræðu og skoðum hvort markaðsvæðing í orkugeiranum, í vatnsgeiranum, í Hitaveitunni, hafi orðið til hagsbóta fyrir samfélagið, fyrir þegnana, fyrir þá sem greiða fyrir þessa þjónustu. Ég held ekki. Það var nákvæmlega það sem forsvarsmenn í orkugeiranum vöruðu við á sínum tíma, að nákvæmlega það mundi ekki gerast. Hið gagnstæða mundi gerast, verðið mundi fara upp á við, og það gerðist.

Ég leyfi mér að fullyrða, og byggi það á einföldum líkindareikningi með hliðsjón af því sem verið hefur að gerast í Evrópu og annars staðar þar sem menn hafa farið út á þessa braut, að þessi uppskipting öll muni leiða til verðhækkunar, ekki lækkunar. Og ég skil ekki hvernig á því stendur að á þessu sviði neiti menn að tala um samlegð og samlegðaráhrif. Við vorum hér með mikla nefnd, hagræðingarhóp, sem sá bara svart ef stofnun var lítil. Þá þurfti endilega að leggja hana niður eða fella hana inn í aðra starfsemi, sameina — samlegðin, sögðu menn, við erum lítið samfélag, reynum að leggja stofnanir og starfsemi saman. En þegar kemur að þessu, þessari grundvallarþjónustu, sem tekur mikla fjármuni úr vösum okkar allra, hitann, rafmagnið, vatnið — nei, þá má ekki tala um neitt slíkt. Þá á að sundra og þá á að innleiða samkeppni og arðsemi, og síðan mun koma að hinu, að þessi starfsemi verður seld.

Við erum búin að fara í gegnum þessa umræðu árum saman og alltaf hafa sömu ósannindin verið uppi. Þegar Landssíminn var á sínum tíma gerður að hlutafélagi var það bara vegna þess, okkur var sagt það, að hlutafélag væri heppilegra rekstrarform. Það stæði ekkert annað til. Og þetta var meira að segja sagt um bankana líka, um ríkisbankana á sínum tíma, þetta væri bara heppilegra form, heppilegra eignarform. Svo liðu nokkrir mánuðir, ég held varla mörg ár, að þá var selt. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)(Forseti hringir.)

Svona er þetta, hæstv. forseti. Ég legg til að nefndin taki málið aftur til sín og hugleiði það í ljósi varnaðarorða sem komu á sínum tíma frá eigendum og sem hafa komið fram í þessari umræðu; og horfi líka til reynslunnar af þeim breytingum sem hér er verið að boða.