143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

74. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera grein fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka um neytendamál við EES-samninginn Nefndarálitið er frá meiri hluta utanríkismálanefndar.

Nefndin fjallaði ítarlega um þessa þingsályktunartillögu og fékk meðal annars til sín fulltrúa innanríkisráðuneytisins sem og fulltrúa nokkurra umsagnaraðila. Frá umsagnaraðilum er greint í nefndarálitinu. Ég tel ekki ástæðu til að telja þá upp hér en geri að öðru leyti grein fyrir nefndarálitinu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012, frá 28. september 2012, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB frá 25. október 2011 um réttindi neytenda, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 85/577/EBE og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 28. mars 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati meiri hlutans í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Markmið tilskipunarinnar er að samræma ákvæði um húsgöngu- og fjarsölu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem kveða m.a. á um rétt neytenda til að falla frá samningi og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytanda áður en samningur um kaup á vörum eða þjónustu verður skuldbindandi af hálfu neytanda.

Við umfjöllun málsins í nefndinni var sá möguleiki kannaður ítarlega hvort með neytendaréttartilskipuninni væri verið að útiloka íþróttahreyfinguna, æskulýðshreyfinguna og önnur frjáls félagasamtök, sem eingöngu starfa í góðgerðaskyni, frá því að afla sér fjár með húsgöngusölu eða annars konar leiðum til fjáröflunar. Í minnisblaði frá innanríkisráðuneytinu til nefndarinnar kom fram að góðgerðasamtök eða íþróttafélög, sem hefðu annað markmið en sölu varnings til neytenda, yrðu að teljast falla utan skilgreiningar tilskipunarinnar. Hins vegar væri ekki loku fyrir það skotið að slík félög féllu undir hana ef um skipulagða sölu félaganna á varningi væri að ræða, sem tæki yfir það langt tímabil, eða ætti sér það reglubundið stað eða verðmæti varningsins væri það mikið að slík sala yrði að teljast til markmiða þeirra. Endanleg niðurstaða um hvort góðgerðasamtök, íþróttafélög eða önnur slík samtök falla undir skilgreiningu neytendatilskipunarinnar yrði þó í höndum Evrópudómstólsins.

Nefndin fól því innanríkisráðuneytinu að kanna málið til hlítar í því augnamiði að taka af öll tvímæli um hvort svo væri. Í niðurstöðu ráðuneytisins er fjallað um skilgreiningu hugtaksins „seljandi“ og bent á að almennt sé „litið svo á að viðsemjandi neytanda hafi með höndum atvinnurekstur, starfi í atvinnuskyni eða teljist atvinnurekandi.“ Því gerir ráðuneytið fyrirvara varðandi „íþróttafélög og önnur félagasamtök, sem eingöngu starfa í góðgerðaskyni, trúfélög og stjórnmálasamtök. Þess konar samtök og félög hafa almennt ekki verið talin hafa atvinnurekstur með höndum í skilningi laga á sviði neytendaréttar þegar þau starfa eingöngu í þágu tilgangs þeirra“. Niðurstaða ráðuneytisins er svofelld: „Í ljósi framangreindra ástæðna er það mat innanríkisráðuneytisins að íþróttafélög og önnur félagasamtök, sem eingöngu starfa í góðgerðaskyni, trúfélög og stjórnmálasamtök, falli ekki undir gildissvið neytendaréttartilskipunarinnar, svo lengi sem ekki fari fram eiginleg framleiðsla eða sala þjónustu eða vöru hjá slíkum félögum, sem telja má að jafnist á við eiginlega atvinnustarfsemi.“

Meiri hlutinn telur framangreint mat ráðuneytisins í samræmi við þá skilgreiningu sem sett er fram á hugtakinu „seljandi“, sbr. 2. tölul. 2. gr. og 4. tölul. 3. gr. tilskipunarinnar: „seljandi“: einstaklingur eða lögaðili, jafnt í eigu hins opinbera sem í einkaeigu, ásamt hverjum þeim sem starfar í nafni seljandans eða fyrir hönd hans, sem starfar að þeim markmiðum sem varða atvinnugrein, fyrirtæki, iðn eða sérgrein hans í tengslum við samninga sem falla undir þessa tilskipun.“ Meiri hlutinn telur að með því að vísa til viðmiðunarmarka fjárhæða, sem eru hæst 50 evrur eða sem nemur um 8.000 kr. miðað við gengi Seðlabankans í dag, muni þorri allrar húsgöngusölu íþróttahreyfingarinnar, æskulýðshreyfingarinnar og annarra félagasamtaka sem eingöngu starfa í góðgerðaskyni falla utan gildissviðs tilskipunarinnar.

Meiri hlutinn ítrekar að þeir aðilar sem munu falla undir ákvæði neytendatilskipunarinnar verða fyrst og fremst þeir sem hafa starfa af fjarsölu og/eða húsgöngusölu. Þrátt fyrir þetta verður að mati nefndarinnar sérstaklega að líta til þess við undirbúning lagafrumvarps til innleiðingar tilskipunarinnar að hún muni með engu móti til dæmis geta átt við um sölu á heimabakstri í þágu góðgerðastarfsemi, samanber 138. mál 140. löggjafarþings, eða eðlislíka starfsemi, og viðkomandi samtök og aðila. Ber við undirbúning lagafrumvarps í þessa veru að líta til afgreiðslu Alþingis í 61. og 138. máli 140. þings þar sem fjórar fráviksheimildir undir ákveðnum kringumstæðum voru settar fram.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en ekki er ljóst hvenær verður af framlagningu fyrirhugaðs frumvarps innanríkisráðherra til breytinga á lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Eftir framlagningu mun frumvarpið að líkindum koma til umfjöllunar í atvinnuveganefnd.

Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér verulegar fjárhagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar. Þá kemur fram í athugasemdum að ætla megi að seljendur vöru og þjónustu þurfi að aðlaga sínar aðferðir við markaðssetningu til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar eftir að hún hefur verið innleidd hér á landi. Samræming reglnanna innan Evrópska efnahagssvæðisins geti á hinn bóginn auðveldað innlendum seljendum að selja vöru eða þjónustu innan svæðisins.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir álit meiri hluta rita hv. þingmenn Birgir Ármannsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Ásmundur Einar Daðason, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, er samþykk áliti þessu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.