143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

74. mál
[17:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir góða yfirferð þar sem hann fór yfir þessa tilskipun. Það koma margar undarlegar tilskipanir frá Evrópusambandinu, oft virka þær mjög sakleysislegar en verða síðan algert skaðræði. Hér fór hv. þingmaður yfir hlut sem er vel þekktur í íslensku þjóðfélagi, góður siður sem er alla jafna þannig að unglingar og foreldrar safna fyrir allra handa hlutum með sölu í heimahúsum. Hv. þingmaður vísaði til þess sem kom fram í umfjöllun nefndarinnar, ef ég skildi það rétt, að innanríkisráðuneytið taldi þetta ekki falla undir það en þó var nefnd ein tala, 50 evrur, 8.000 kr. eða eitthvað slíkt, ef þetta væri fyrir undir því væri allt saman í lagi.

Ég er búinn að kaupa fyrir mun meira en 8.000 af íþróttafélögum í þessum mánuði, klósettpappír og alls konar hluti af ungu fólki sem hefur komið heim og bankað upp á og er að bjarga sér. Ég vildi fá að vita frá hv. þingmanni hvort við höfum tryggingu fyrir því að sú sala sem hefur viðgengist á Íslandi um áratugaskeið og er engum til skaða, eingöngu til góðs, hvort við sjáum hér eitthvert reglugerðarfargan í tengslum við hana. Er algerlega tryggt að það haldist óbreytt frá því sem við þekkjum núna ef við samþykkjum málið sem hv. þingmaður er að tala fyrir?