143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

74. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú mikla samúð með húsgöngusölu. Ég fjármagnaði nám mitt að mestu leyti með húsgöngusölu á bókum. Ég tel að sú húsgöngusala hafi fallið undir þessa neytendaréttartilskipun. Mér finnst dálítið langt gengið þegar þrír dagar eru liðnir af þessum mánuði að hv. þm. Guðlaugur Þór hafi þegar ráðstafað meira en 50 evrum til kaupa, og ég veit til þess að hann hefur lítt verið heima í þessum mánuði.

Ég lít nú svo á að hver einstök kaup innan við 8.000 kr., ég tala nú ekki um ef hver einstakur hlutur er innan þeirrar upphæðar, falli utan þessarar tilskipunar. Ég held að alls meðalhófs sé gætt í þessu, þarna er verið að ítreka skilarétt neytenda í húsgöngusölu og að seljanda beri að upplýsa um tiltekna kosti vöru, þannig að þeim ágæta sið sem börn, unglingar og jafnvel fullorðið fólk stundar til þess að fjármagna frjálsa félagastarfsemi sé ekki ógnað með þessu, og ég tala nú ekki um öðrum heimilisþörfum.