143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

74. mál
[17:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlega auðvelt að eyða 50 evrum, jafnvel 8.000 kr. í húsgöngusölu. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni, enda fylgist hann vel með, að það var náttúrlega ekki í þessum mánuði heldur í síðasta mánuði. Tíminn er bara svo fljótur að líða að ég hafði ekki áttað mig á því, þó ætti ég nú að vita án þess að fara í gegnum það að kominn er desember. En við skulum hafa þetta alveg nákvæmt, það var í nóvember.

Af því að ég hef séð mörg svona sakleysismál hringja hér ákveðnar viðvörunarbjöllur, sérstaklega miðað við þessar 50 evrur. Ég fullyrði að þau ágætu ungmenni sem eiga þá að hafa einhverjum skyldum að gegna og fara í gegnum kosti einstakra vara eru alla jafna ekki í þjálfun eða ekki kennt að fara í gegnum það. Eftir upplifun mína af ríkisrekstrinum, hvernig hann hefur blásið út á óskiljanlegustu stöðum út af eftirliti — sem hefur síðan oftar en ekki virkað mjög lítið þar sem á þarf að halda en er mjög mikið á sviðum sem snerta okkur lítið — verð ég að viðurkenna að ég hef áhyggjur af því þegar ég sé þetta mál koma fram. Hv. þingmaður nefndi að hann hefði fjármagnað nám sitt með húsgöngusölu sem er til mikillar fyrirmyndar og ég held að hún hafi ekki valdið miklum skaða á Íslandi. Ég held ekki að mikil þörf sé á því að stoppa hv. þm. Vilhjálm Bjarnason sem gengur á milli húsa til að fjármagna nám sitt. Ég hef nokkrar áhyggjur af þessu máli.