143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd þingmannanna Haraldar Benediktssonar, Jóns Gunnarssonar, Ásmundar Friðrikssonar, Kristjáns L. Möllers, Páls Jóhanns Pálssonar og Þorsteins Sæmundssonar mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013. Frumvarpið er svohljóðandi:

1. gr. 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:

Starfsemi samkvæmt lögum þessum skal háð reglulegu opinberu eftirliti af hálfu Matvælastofnunar. Umfang og tíðni eftirlits skal byggt á áhættuflokkun.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, í því skyni að draga úr umfangi þess eftirlits sem lögin mæla fyrir um. Lögin voru samþykkt á 141. löggjafarþingi en öðlast gildi 1. janúar 2014.

Í frumvarpi því sem varð að lögum var mælt fyrir um reglulegt opinbert eftirlit af hálfu Matvælastofnunar. Kveðið var á um að leyfisskyld starfsemi væri háð reglulegu opinberu eftirliti af hálfu stofnunarinnar en umfang þess og tíðni byggðist á áhættuflokkun.

Þáverandi atvinnuveganefnd lagði til breytingu á ákvæðinu þar sem kveðið var á um tiltekið lágmark eftirlitsheimsókna þannig að þær yrðu ekki sjaldnar en annað hvert ár. Flutningsmenn leggja til að fallið verði frá því að mæla fyrir um svo tíðar eftirlitsheimsóknir og að ákvæðinu verði breytt í fyrra horf. Eftirlitið og umfang þess verði því byggt á áhættuflokkun. Flutningsmenn telja að með því að falla frá heimsóknum annað hvert ár megi draga töluvert úr kostnaði. Gert er ráð fyrir því að eftirlitið verði áhættumiðað og m.a. horft meira til þess hvort upplýsingum frá búfjáreigendum sé skilað með fullnægjandi hætti eða ekki.

Virðulegi forseti. Þetta hlaut þó nokkra umræðu á síðasta þingi, 141. þingi, þegar málið var afgreitt. Niðurstaðan þá var að mæla fyrir um svo strangt eftirlit eins og raun ber vitni í þeirri löggjöf. Eftir að hafa skoðað málið hafa þessir hv. þingmenn orðið sammála um að tilefni sé til að draga úr því. Það hefur komið fram ákveðið kostnaðarmat sem sýnir okkur að þetta yrði mjög kostnaðarsamt og þessi kostnaður lendir auðvitað á þeim sem stunda búfjárhald fyrst og fremst og getur numið milljónum króna á ári.

Sem betur fer er það nú þannig í okkar samfélagi að flestir sem stunda búrekstur gera það með miklum sóma og eru með hlutina í lagi á sínum búum. Það er mat nefndarmanna að ástæðulaust sé að vera með svo strangt eftirlit á stöðum þar sem ekkert athugavert hefur komið fram. Þess vegna er hér lagt til að þetta verði byggt á áhættuflokkun. Það fer þá eftir starfsemi og það fer þá eftir því hvernig reynslan er. Þetta hefur ekkert með það að gera að draga úr skyldum Matvælastofnunar til að hafa eftirlitið eða að taka á móti ábendingum eða kærum. Það breytist ekkert við þetta en reynt er að draga úr þessu umfangi og er svona í samræmi, getum við sagt, við þau markmið að vera ekki að ýta óþarfaeftirliti að íslensku atvinnulífi og íþyngja því með tilheyrandi kostnaði sem síðan lendir á neytendum að lokum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þetta frumvarp gangi til hv. atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu.