143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:26]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessu eftirliti var þannig háttað til sveita um árabil að svokallaðir fóðureftirlitsmenn voru skipaðir í héraði. Þetta voru gjarnan einhverjir bændur í sveit eða aðrir sem bjuggu í nágrenninu sem höfðu með þetta eftirlit að gera og þeir fóru heim á bæina á hverjum vetri og mældu stabbann eins og þar stendur. Þeir mældu heyforða og tóku þannig mælingu og svo var þetta reiknað út frá þörfinni miðað þann búfjárstofn sem var á hverju búi. Þetta voru kallaðir fóðureftirlitsmenn. Þetta var ágætisfyrirkomulag og var til þess gert að reyna að rýna í það hvort einhvers staðar væru vandræði með að fóðra það fé sem sett var á fyrir veturinn í þeim húsakosti sem búin höfðu yfir að ráða.

Nú er búið að breyta þessu. Nú eru þetta ekki lengur menn í héraði heldur sinnir Matvælastofnun þessu eftirliti og það hefur augljóslega í för með sér meiri kostnað til dæmis; og ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér, við þessa þróun. En það hlýtur samt að vera markmið okkar allra að vera ekki með of íþyngjandi eftirlit í íslenskum atvinnurekstri hver sem hann er. Í því felast engin skilaboð um að eftirlit eigi ekki rétt á sér og sé ekki nauðsynlegt. Það er alveg ljóst að ekkert má slá af þeim kröfum sem við gerum til matvælaframleiðslu eða annarrar framleiðslu í landinu þegar kemur að eftirliti. En mikið hefur verið kvartað yfir því, það er nokkuð víðtæk kvörtun, að svokallaður eftirlitsiðnaður hafi vaxið og farið úr böndum á undanförnum árum og sé orðinn verulega íþyngjandi fyrir atvinnurekstur almennt í landinu. Það er meðal annars í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar og hefur verið rætt um það að skoða þessa hluti. Það þarf að gera þetta í einhverri sátt.

Kostnaður við svona eftirlit lendir bara á einum stað að lokum, virðulegi forseti. Hann lendir á neytendum landsins, hann lendir á borgurunum. Það er enginn annar sem borgar þennan kostnað. Út frá því sjónarmiði einu og sér er ærin ástæða til að skoða þessa hluti í víðtæku samhengi þannig að við megum þá liðka fyrir framleiðslu, draga úr eftirliti þar sem það er hægt og eðlilegt og reyna að minnka kostnað og umfang atvinnulífsins af því að bera þetta eftirlit og deila því síðan út í verðlagið. Það held ég að sé uppruni málsins — af því að ég var spurður að því hver væri uppruni málsins, hvaðan það væri upprunnið. Verið er að skoða allan kostnað og meðal annars verið að skoða þessi mál og uppruninn liggur í því að löggjafinn hafi þarna gengið of langt, þ.e. að mati þeirra sem flytja þetta mál.

Eins og ég sagði hér áðan þá er í flestum tilfellum, ef við horfum á búrekstur í landinu, allt í góðu lagi. Auðvitað hefur margt breyst til sveita, sem betur fer, og víðast hvar eru hlutirnir í mjög góðu lagi, fyrirmyndarbú eru rekin um allt land. Er ástæða til að það sé lögbundið að farið skuli heim á þessi bú með reglulegu millibili eða er ástæða til þess, eins og gert er ráð fyrir hér, að eftirlitið verði áhættumiðað? Þá á það bæði við um það hvað verið er að framleiða og hversu mikið eftirlit sé eðlilegt miðað við framleiðsluafurðir og hvort upplýsingar sem er skilað séu nægilegar, hvort þeim sé skilað með fullnægjandi hætti eða ekki og síðan að eftirlit sé aukið að gefnu tilefni þar sem þess er þörf. Almennt séð held ég að menn hafi verið sammála um þetta og þannig leit frumvarpið út eins og það kom til hv. atvinnuveganefndar á síðasta vori. Þannig kom það frá hæstv. ráðherra og þáverandi formanni Vinstri grænna til þingsins. Það má segja að við séum að fara í þann farveg sem lagt var til á sínum tíma og einhverjar milljónir muni sparast í rekstri á ári, sennilega á bilinu 5–10 milljónir án þess að ég vilji bera algera ábyrgð á þeim tölum.