143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var meiningin að fara í andsvar en ég veit ekki hvort það slapp til. Það gildir einu, ég fer þá bara í aðra ræðu þótt hún verði stutt.

Mig langar að biðja hv. framsögumann að fara í andsvar við mig vegna þess að ég hef tvær, þrjár spurningar til hans sem eru kannski fyrst og fremst vegna þess að hann gerði ágætlega grein fyrir … (Gripið fram í.) Þá breyttist það í andsvar, takk fyrir það. Hann gerði ágætlega grein fyrir tilurð og uppruna þessa máls og eins og ég skildi hann er það hluti af miklu stærri mynd, þ.e. við erum ekki að tala um tiltekið tilefni sem kemur upp einungis eftir þessa löggjöf heldur miklu frekar pólitíska sýn ríkisstjórnarinnar að því er varðar eftirlit almennt og þann kostnað sem af því hlýst.

Þetta er kunnuglegt stef í hægri pólitík að jafnaði, þ.e. að eftirsóknarvert sé að draga úr eftirliti og að menn líti yfirleitt alltaf á eftirlit með augum þess sem telur eftirlitið vera íþyngjandi. Það er orðfærið sem er gjarnan notað þegar menn fjalla um eftirlit og það kom raunar alloft fram í máli hv. þingmanns að það væri íþyngjandi. Ég vil tala um það almennt en ekki hvað varðar þetta frumvarp sem er hér til umfjöllunar. Telur þingmaðurinn að eftirlit sé fyrst og fremst íþyngjandi og ef eftirlit er til einhvers spyr ég: Í þágu hverra er eftirlit með atvinnurekstri? Hverjum þjónar eftirlit með atvinnurekstri yfirleitt eða lítur þingmaðurinn svo á að það sé í meginatriðum íþyngjandi?