143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta ágæta samtal sem við erum að koma á hér. Ég held raunar að það sé afar mikilvægt út frá þessari heildarnálgun af því að þingmaðurinn er með ákveðið þrástef í sínu máli sem er oft nær, finnst mér, ákveðinni pólitískri afstöðu frekar en það liggi skýrt mat til grundvallar hverju sinni. Þótt ég vilji ekki gera þingmanninum upp skoðun í þeim efnum vil ég kannski vera með þær vangaveltur hér að ef við göngum út frá því að við ætlum að hafa það að markmiði að draga úr eftirliti, eins og mér hefur stundum fundist sjálfstæðismenn tala, þurfum við til að mynda að huga að Fjármálaeftirlitinu í aðdraganda bankahrunsins. Við þurfum að huga að eftirliti með fjarskiptafyrirtækjum sem við höfum nýleg dæmi um að sé stórlega ábótavant, við getum nefnt kjöt eða ekki kjöt í kjötréttum, við getum nefnt kadmíum, við getum nefnt díoxín, við getum nefnt fleiri dæmi um ákveðið metnaðarleysi í því að halda utan um þessa heildarhagsmuni. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta snýst í meginatriðum um, eins og hann orðar það hagsmuni neytandans en það sem ég vil kalla hagsmuni almennings í stóra samhenginu. Ástæðan fyrir því að ég er að ræða við hv. þingmann í þeim efnum er að mér finnst mikilvægt að við drögum fram kjarnann í þessari umræðu sem er sá að ekki er gefið án þess að það sé skoðað hverju sinni að það að draga úr eftirliti, þótt það hafi tímabundinn fjárhagslegan ávinning í för með sér, sé heildarhagsmununum í hag, (Forseti hringir.) hvorki að því er varðar hagsmuni almennings né eins og hér er, málleysingjanna.