143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvort það er einhver pólitík eða ekki hvernig ég tala verður hv. þm. Svandís Svavarsdóttir að leggja sitt mat á. Það má vel vera að okkur greini á um þetta. Hún nefndi hér dæmi eins og um kadmíum í áburði sem kom upp af því að við höfum eftirlit með því og hvort það væri kjöt í kjötréttum, þetta er af því að við höfum eftirlit með því. Ég er ekki að mæla gegn því að við séum með eftirlit, alls ekki.

Við getum líka velt því fyrir okkur, eins og fram hefur komið í umræðu innan hv. atvinnuveganefndar til dæmis um kadmíuminnihald í áburði, og við fáum mál hingað í þingið fljótlega út af því, hvort rétt sé að við, sem erum hluti af stærra svæði, þurfum alfarið að hafa eftirlit með því sjálf eða hvort eigi að gilda vottorð frá viðurkenndum erlendum skoðunarstofum um að þeir hlutir séu í lagi. Ég nefni það bara sem dæmi. Við gerum það ekki í dag heldur erum með eftirlit með því sjálf.

En hvað gerum við í þessu eftirliti? Tekin eru sýni af áburðinum með aðferð sem menn setja spurningarmerki við, alla vega er það lakari aðferð en tíðkast erlendis, og við sendum þau til sömu rannsóknarstofnana erlendis og fáum niðurstöðu þaðan þegar við gætum verið að fá skírteini með. Er það ofeftirlit af okkar hálfu að vera eina landið í Evrópu sem ekki samþykkir að fá vottorðið með frá þessari skoðunarstofu? Göngum við of langt? (Forseti hringir.) Kostum við of miklu til við að vera í þessu sjálf?