143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

169. mál
[19:03]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég flyt þingsályktunartillögu um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Þetta er tillaga sem hefur verið flutt áður, bæði á 140. og 141. löggjafarþingi, í bæði skiptin af hv. fyrrverandi þingmanni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, með meðflutningi nokkurra annarra þingmanna.

Flutningsmenn tillögunnar eru auk mín allir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og tillagan er hér endurflutt með þeirri breytingu að við afmörkun væntanlegs þjóðgarðs verði tekið mið af þeim forsendum fyrir vernd náttúrufars og menningarminja sem liggja til grundvallar þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða — rammaáætlun — sem var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013. Okkur þótti rétt að gera þessa breytingu í ljósi þess að sömu sjónarmið gilda þegar dregin eru mörk verndunar og nýtingar landsvæða og þegar dregin eru þjóðgarðamörk. Í báðum tilvikum eru þau landsvæði afmörkuð sem eiga að njóta friðunar og varðveitast þá til framtíðar með öllum sínum eiginleikum. Afmörkuð eru þau landsvæði sem enginn hefur vald til að spilla eða leggja undir starfsemi sína en þegar þjóðgarður á í hlut skal jafnframt tryggja aðgang almennings að svæðinu og gefa fólki kost á að njóta þar náttúru og sögu með þeim hætti að ekki valdi spjöllum.

Þessi umræða er ekki ný af nálinni. Segja má að hugmyndin um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs hafi fyrst komið upp þegar á miðjum tíunda áratug liðinnar aldar. Til að mynda á árinu 1998 flutti þáverandi hv. þm. Hjörleifur Guttormsson þingsályktunartillögu þar sem kveðið var á um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu sem hefðu innan sinna marka helstu jökla miðhálendisins og aðliggjandi landsvæði, þ.e. Hofsjökuls-, Langjökuls-, Mýrdalsjökuls- og Vatnajökulsþjóðgarða. Sú tillaga var endurflutt á 123. löggjafarþingi og leiddi svo til ályktunar Alþingis árið 1999 um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Í kjölfarið fór fram mjög umfangsmikil og vönduð vinna. Niðurstaða hennar var svo lögin frá 2007 um Vatnajökulsþjóðgarð og þá var þjóðgarðurinn formlega stofnaður með reglugerð vorið 2008.

Það var gríðarlega stórt og mikilvægt skref sem ég held að allir hv. þingmenn þá og nú geti verið mjög stoltir af, að sjá hvernig sú vinna varð að veruleika og hvernig sá þjóðgarður blómstrar í dag. Það er auðvitað umhugsunarefni þegar við horfum upp á jökla um land allt hopa og nýtt landslag koma í ljós. Þá er líka mikilvægt að velta fyrir sér hvernig við ætlum að fara með það landsvæði. Hér er sem sagt lagt til að halda þessu verkefni áfram, ef svo má að orði komast, og það lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að vinna að því, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, að stofna Hofsjökulsþjóðgarð sem hafi þá innan sinna marka Hofsjökul og aðliggjandi svæði.

Mörg þau svæði eru þegar friðlýst eða á náttúruminjaskrá, en mestu máli skiptir að þarna verði til ákveðin samfella. Eins og við vitum er Hofsjökull þriðji stærsti jökull landsins. Í honum er risastór ísfyllt askja og Hofsjökull yrði þá miðja þessa þjóðgarðs. Það er mjög mikilvægt að vandað verði til þeirrar vinnu, eins og gert var á sínum tíma með Vatnajökulsþjóðgarð, þannig að allir sem tengist þessum aðliggjandi svæðum komi að stofnun þjóðgarðsins og að náin samvinna verði höfð við heimamenn, skipulagsyfirvöld og, eins og sagði, hugsanlega rétthafa.

Ég gæti eytt mörgum orðum í að lýsa náttúrufegurðinni á þessum stað, einstökum náttúrufyrirbærum. Ég ætla ekki að gera það, ég held að best sé bara að fólk kynni sér mál og skoði þau. Það er þó ekki nokkur spurning að ef þessi þjóðgarður yrði stofnaður væri það mjög mikilvægt skref í náttúruvernd á Íslandi. Þar með yrði þessu umhverfi, þeirri landslagsheild sem þarna er, lyft á verðskuldaðan stall. Þegar við horfum upp á þær breytingar sem kunna að verða á landslagi þarna til framtíðar er að mínu viti gríðarlega mikilvægt að við mörkum ákveðna stefnu í þessum málum.

Eins og ég nefndi áðan er allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þessu máli. Við leggjum á það töluverða áherslu að vinna þessu máli fylgi. Í tillögunni felst, eins og ég lýsti, að ráðherra verði falið að vinna að málinu í samráði við alla rétta aðila, kynni Alþingi stöðu málsins fyrir lok vorþings 2014 og það yrði stefnt að formlegri stofnun þjóðgarðsins 2015. Þar þarf auðvitað margt að taka með, ég nefndi áðan samráð en ég vil líka nefna viðmið Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna um þjóðgarða og önnur verndarsvæði sem voru höfð til hliðsjónar í Vatnajökulsþjóðgarði. Ég held líka að það skipti máli að horfa til þess að þetta getur orðið mikið aðdráttarafl fyrir alla þá ferðamenn sem hingað koma. Við höfum margoft rætt það á Alþingi að það skiptir máli að fjölga þeim svæðum sem ferðamenn geta heimsótt enda er ágangur ferðamanna á ýmis náttúruleg svæði orðinn mjög mikill. Það skiptir máli að við setjum okkur ákveðna stefnu í þeim efnum og þar eru jöklarnir gríðarlegt aðdráttarafl.

Í október 2011 var gerð skoðanakönnun fyrir náttúruverndarsamtök sem leiddi í ljós að víðtækur stuðningur er við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. 56% aðspurðra voru hlynnt slíkum þjóðgarði, 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu. Það sem var áhugavert líka var að sjá að samkvæmt þessari könnun, sem Capacent Gallup gerði, átti hugmyndin stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka, meðal allra aldurshópa og um land allt. Það er umhugsunarefni þegar við ræðum hér að þetta gæti verið eitt af þeim málum sem hægt væri að fá víðtæka sátt um á Alþingi. Ég vona svo sannarlega að það verði til þess að þetta verði vel skoðað.

Ég legg það til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni þessari umræðu og ég þykist viss um að þar verði góð og málefnaleg umræða. Vonandi getum við stefnt að því að afgreiða þessa tillögu á þessu þingi.