143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

169. mál
[19:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir framsögu hennar með þessari þingsályktunartillögu. Ég get að mörgu leyti tekið undir með hv. þingmanni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið rætt í hópi þeirra er að þingsályktunartillögunni standa með hvaða hætti menn sjái fyrir sér hvort við sjáum þarna enn eina stjórn með þjóðgarði, hvernig við leysum öll þau verkefni. Nú hefur margoft verið rætt á þingi að Vatnajökulsþjóðgarður, stór og mikill þjóðgarður, hefur eigin stjórn og fær til sín fjármagn. Við höfum þjóðgarðinn á Þingvöllum sem hefur ákveðinn þunga í íslenskri sögu allri og síðan höfum við þjóðgarðinn í kringum Snæfellsjökul sem einhvern veginn virðist alltaf verða pínulítið út úr, kannski vegna legu eða hvað svo sem því veldur. Hvernig sjá hv. þingmaður og þá þeir flutningsmenn sem að þessari ágætu þingsályktunartillögu standa að við gætum í raun framfylgt því sem við reynum að setja okkur með stofnun þjóðgarða af því tagi sem hv. þingmaður mælir hér fyrir og eru nú þegar á landinu?