143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

195. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Flutningsmenn ásamt mér eru Ásmundur Friðriksson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Vilhjálmur Árnason.

Virðulegur forseti. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.“

Tillaga þessi var flutt áður á 140. löggjafarþingi og síðan á 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er því endurflutt óbreytt.

Virðulegur forseti. Afreksíþróttir hafa skipað veglegan sess meðal landsmanna og afreksíþróttafólk okkar hefur verið góð landkynning hér heima sem á erlendri grund. Okkur er jafnframt ljóst mikilvægi þess að börn og ungmenni hafi góðar fyrirmyndir. Slíkt er ómetanlegt fyrir allt forvarnastarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála. Ýmislegt hefur verið gert af hálfu hins opinbera sem vert er að nefna, sérsamböndum hefur verið gert kleift að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands, ferðasjóður íþróttafélaga hefur verið efldur og stutt hefur verið við afrekssjóð Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, en betur má ef duga skal.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur mótað afreksstefnu sína þar sem settar hafa verið fram tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. Um þetta má lesa í stefnumótun í íþróttamálum í bæklingi sem kom út í september 2011. Á bls. 17 er talað um keppni sem hluta af íþróttastarfi. Síðan eru tengdar nokkrar leiðir þar sem m.a. atvinnulífið og skólakerfið komi að, sérsamböndin verði áfram studd og ferðasjóður íþróttafélaga verði efldur og jafnframt er rætt um að veitt verði peningaverðlaun fyrir árangur á heimsmælikvarða líkt og þekkist hjá öðrum Evrópuþjóðum.

Virðulegur forseti. Vissulega er þetta af hinu góða en að mati flutningsmanna nær þetta ekki því markmiði sem í raun þessi stefnumótun segir. Ég tek fram, virðulegur forseti, að umrædd stefnumótun er unnin af ráðherrum á kjörtímabilinu 2007–2009 og síðan 2009–2013 þannig að ólíkir ráðherrar og ólíkir flokkar hafa komið að þeirri stefnumótun.

En til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber, ásamt því að horfa á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Mörg íþróttafélög í samvinnu við sveitarfélög hafa gert slíkt hið sama.

Við eigum og þekkjum að landslið kvenna í knattspyrnu og handknattleik hafa á undanförnum árum bæst í hóp landsliða karla í sömu greinum. Við eigum heimsmeistara, unglingameistara og Norðurlandameistara í einstaklingsíþróttum, jafnt ófatlaðra sem fatlaðra, og við eigum hópíþróttafólk í fimleikum sem hefur náð til sín Norðurlandatitlum og Evróputitlum. Því er tímabært að mati okkar flutningsmanna að stjórnvöld, jafnt menntamálaráðuneytið sem sveitarfélög og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands móti stefnu um afreksfólk.

Í þingsályktunartillögunni er því lagt til, eins og fyrr er sagt, að ráðherra verði falið að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum. Mikilvægt er að stefnan verði unnin, eins og sú fyrri, í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin — og mætti bæta við Samtökum atvinnulífsins — til þess að tryggja að sem flestir taki þátt í vinnunni. Þannig eru mestar líkur á að stefnan verði grundvöllur að öflugum stuðningi við afreksfólkið sem eykur líkur á að sem mestur árangur náist. Nauðsynlegt er að stefnan verði tímasett til næstu fimm eða tíu ára, og enn nauðsynlegra að fjárhagslegur stuðningur verði tryggður samhliða. Flutningsmenn leggja líka áherslu á að stefnan verði endurskoðuð árlega og að ráðherra haldi allsherjar- og menntamálanefnd þingsins upplýstri um framgang mála.

Það er annað sem vert er að nefna í þessu sambandi, virðulegur forseti, sem ekki er að finna í greinargerðinni. Ég sem flutningsmaður beini þeim tilmælum til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að horft verði til þess hvernig afreksíþróttafólk okkar, sem hlýtur hvers konar styrki og fjárhagslegan stuðning, geti með einhverjum hætti samhliða áunnið sér réttindi til dæmis til bóta vegna slysa og réttindi til lífeyris. Oft er þetta ungt fólk, hvort heldur er í hópíþróttum eða einstaklingsíþróttum í blóma lífsins, sumt að mennta sig samhliða því að stunda íþróttir, kemur svo aftur hugsanlega út á vinnumarkaðinn en hefur í mörg ár ekki notið þess að afla sér réttinda í því sem hér var nefnt. Ég ítreka, virðulegur forseti, að þessa er ekki getið í greinargerð en ég vænti þess og beini þeim vinsamlegu tilmælum til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að hún skoði þennan þátt sömuleiðis.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, er lagt til að málið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar.