143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

195. mál
[19:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég tek heils hugar undir með henni að þessum peningum er afskaplega vel varið og ágætishugmynd einmitt með listafólkið. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að sjálfsögðu að huga að og hefur auðvitað kannski verið gert, ég tel reyndar að það hafi verið vísir að því á síðasta kjörtímabili með styrkjum og öðru slíku sem lagt var í alls konar sjóði þessu tengdu.

En af því að ég nefndi það í þessu samhengi þá langar mig til að rifja upp að ég ræddi við ráðherra um daginn um stuðning við fatlaða íþróttamenn sem fara á Ólympíuleika. Ég vona að þingmenn styðji það því að það vantar örlitla aura til að þeir komist á vetrarólympíuleikana. Það eru ekki miklir peningar en er einmitt dæmi um það hvernig fjármunum er vel varið. Þetta eru fyrirmyndir, hver og einn, innan síns geira. Þarna er um að ræða tvo einstaklinga sem eru að fara utan og ég ætla að vona að við náum saman um að tryggja þeim förina.

Að öðru leyti er ég ánægð með þessa umræðu sem við eigum hér og ég held að við náum saman um þetta mál þegar stefnumótun liggur fyrir.