143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[19:53]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar. En þetta vekur samt ugg, miðað við þá venjulegu merkingu sem við leggjum í orðið læsi, að geta lesið texta. Það er eitthvað að hjá okkur þegar niðurstöðurnar eru svona. Við sjáum líka í þessari könnun að líðan nemenda mælist betri en oft áður. Þá segi ég samt sem fyrrverandi kennari og fyrrverandi skólastjóri, en skólamanneskja: Það er eitthvað að ef betri líðan dregur úr færni, þekkingu og kunnáttu. Við hljótum að þurfa að nálgast verkefnið út frá því.

Þetta er hluti samtímamenningar. Ég er sammála því að hæfni nemenda, ungra stelpna og stráka í dag til að lesa úr áreiti, vinna með tól og tæki og ná sér í upplýsingar og nýta sér þær á einhvern hátt er fyrir hendi, en ef þau lesa ekki textann og skilja ekki samhengið í textanum hljótum við að þurfa með einhverjum hætti að bregðast við.

Ég ítreka að við þurfum að horfa á það að betri líðan ætti að gera manni kleift að ná meiri færni, meiri hæfni, auka þekkingu og auka kunnáttu. Það er það sem ég vil lesa út úr PISA-könnuninni. Hún er hluti af því menningarumhverfi sem við lifum í í dag. Við eigum að læra af henni, taka það góða úr henni og bæta hitt sem miður hefur farið.