143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[19:59]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, en vil þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt. Ég beini þeim tilmælum til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að hún íhugi það sem fram hefur komið í umræðunni og stendur ekki í sjálfri tillögunni, hvað það er mikilvægt að horfa vítt og breitt á það sem gerir menningu að menningu og varðveita þá þætti sem skipta máli.

Það sem hv. þm. Þórunn Egilsdóttir sagði hér um samtalsþætti við þá sem kunna forn vinnubrögð jafnvel eða um atvinnugreinar sem eru að hverfa og ýmsir slíkir samtalsþættir, þá er það að sjálfsögðu stór hluti af menningu okkar og verkmenningu, jafnt sem annarri menningu okkar. Það er mikilvægt að slíkt verði tekið með í reikninginn þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoðar þessa tillögu. Vilji hv. nefnd víkka tillöguna út held ég að það sé fagnaðarefni og ekkert því til fyrirstöðu að sjálfsögðu. Mér finnst það kannski skipta mestu máli að tillagan hljóti brautargengi í nefndinni og að hún verði afgreidd hér á þingi, en að öðrum kosti boða ég flutning hennar aftur á næsta þingi.