143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að nákvæmlega þau sjónarmið sem koma fram í máli hv. þingmanns rati inn í nefndina; þetta er slagkrafturinn í frumvarpinu, ástæðan fyrir því að það er lagt fram. Það er þá þeirra sem fyrir því mæla að sannfæra þingheim um að það sé góð og skynsamleg nálgun.

Ég velti fyrir mér merkimiðunum, frjálslyndi versus stjórnlyndi. Almennt erum við hér í löggjafarþinginu að vinna að því af bestu yfirsýn að setja samfélaginu einhvers konar ramma. Það er náttúrlega lýðræðið að setja ramma og stundum er einhvers konar stjórnlyndi falið í því. Ég nefni sem dæmi þegar við erum að vinna með umferðarreglur eða skatta, það er ekkert „líbó“ við það, það er ekkert frjálslyndi við það hvort maður borgar skattinn eða ekki þó að sumir mundu gjarnan vilja hafa það þannig.

Mér finnst mikilvægt að fara ekki í þann farveg með þetta mál, að gera úr þeim sem vilja fara varlegar einhvers konar miðstýrðar stjórnlyndistýpur en hina einhvern veginn opnari og nútímalegri, af því að þetta snýst ekki um það. Þetta snýst ekki um fortíð og nútíð, þetta snýst um það að við getum tekið þessi sjónarmið og rætt þau og borið þau saman.

Það sem ég vildi draga fram áðan í ræðu minni var mikilvægi þess að við sæjum það samhengi að mannanafnalöggjöfin er hluti af íslenskri málstefnu. Ég sagði í kjölfarið: Það kann að vera að við viljum breyta málstefnunni en þá er þetta partur af því. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta snýst ekki bara um val einstaklingsins, klippingu eða fatnað, heldur líka um málstefnu.