143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að koma inn á það sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði um að komnar væru einhverjar mannanafnanefndarbakdyr með því að ráðherrar tæki ákvörðun um þetta. Það er að sjálfsögðu þannig að þegar er nefnd eins og mannanafnanefnd sem er að vinna í þessu og engu öðru og setur rammann um það í staðinn fyrir að einstökum tilfellum, einhverjum algerum ónefnum, sé vísað til ráðherra eða hvaða aðila sem það væri — það er náttúrlega stór munur á þessu tvennu. Í samhengi við þetta væri kannski vert að skoða hvað mundi sparast með því að leggja mannanafnanefnd niður en þar gætu peningar fengist í mikilvægari verkefni.

En svo varðandi það að verja málhefðina sem hv. þingmaður nefnir, það er vissulega ákveðið gildi sem margir setja ofarlega og aðrir neðar. En þetta kom samt sem áður mjög vel fram hjá 1. flutningsmanni, hv. þm. Óttari Proppé, hvernig hann tengdi þetta við það hvernig fólk vill koma persónu sinni á framfæri við heiminn, hvernig það vill koma fyrir og hvað það vill kalla sig, hvort sem það snýr að kynhneigð, kynvitund eða hvað. Til eru lönd í heiminum þar sem reglur eru til um að bannað sé að kalla sig homma eða lesbíu eða að nota annað orð um kyn sitt en líffræðilegt kyn, það eru bara lög um að það skuli bannað.

Finnst hv. þingmönnum vera stigsmunur eða eðlismunur á því að stjórnvöld grípi inn og segi: Þú mátt ekki kalla þig það sem þig lystir, þegar kemur að kynhneigð eða þegar kemur að nafni? Ekki er langt síðan skömm fylgdi því á Íslandi, og enn fylgir því einhver skömm, að merkja sig þannig annarri kynhneigð en gert er samkvæmt hefðinni. Ég spyr hvort þingmanninum finnist þarna um eðlismun eða stigsmun að ræða.