143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ef við höldum aðeins áfram að tala um þessar bakdyr er mjög mikilvægt að inn í þessa umræðu komi skilningur á því að frumvarp liggur fyrir þessu þingi, eða hvort það var lagt fram á sumarþinginu, varðandi líffæragjafir. Staðreyndin er sú að í þeim ríkjum þar sem líffæragjafir eru getur fólk merkt við það: Ég vil gefa líffæri mitt við dauða minn o.s.frv. Ef merkja þarf við það er miklu ólíklegra að fólk gefi líffæri. Ef það er aftur á móti sett í lög að allir gefi líffæri — nema þeir skrái sig út eða merki við að þeir vilji það ekki — þá eru menn miklu líklegri til að gefa líffæri.

Ég las einhvern tíma frétt um þetta í Evrópu. Menn áttuðu sig ekki á því hvers vegna þetta væri svona mismunandi milli landa. Þeir voru að reyna að átta sig á því hvaða parametrar þetta væru? Er það hvað löndin eru vinstri sinnuð, hvað þau eru hægri sinnuð eða hvað þau eru samfélagslega þenkjandi, eða hvað? En niðurstaðan var að þetta var lykilatriðið um það hvað margir gáfu líffæri í löndunum.

Við sjáum þetta líka hjá Vodafone með SMS-skilaboðin. Þar var hakað fyrir fólk: Ég vil láta geyma upplýsingarnar. Við þekkjum þetta prinsipp.

Það sem þetta lagafrumvarp leggur til er að í grunninn geta allir nefnt það sem þeir vilja. Aftur á móti ef einhver sér að það er algert ónefni og vill gera eitthvert mál úr því þá þarf sá hinn sami að hafa frumkvæði að því að vísa því áfram. Það finnst mér mjög gott prinsipp svo við höldum því til haga, það er betrumbótin meðal annars.