143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:46]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og þeim umræðum sem hafa átt sér stað, ég held að þær séu mjög þarfar. Það er margt í þessu sem vekur áhuga minn. Ég vil trúa því að mannskepnan sé nú þannig að henni sé fyllilega treystandi fyrir því að velja nöfn á afkvæmi sín eða fjölskyldumeðlimi. En því miður eru undantekningar á því þannig að ég held að varnaglinn þurfi að vera inni. Þá velti ég líka fyrir mér — ég veit að við eigum eftir að ræða það betur, við klárum ekki þessa umræðu hér — hvort leiðin sé sú að ráðherra hafi það vald. Ég staldra aðeins við það. Hvernig á að fara með það? Svo er það bara sú umræða hvort við eigum yfir höfuð að hafa einhver lög um það, mér finnst líka þurfa að ræða það út frá þeim sjónarhóli. En þá er eitthvað inni í mér sem bendir á hefðina sem við höfum hérna, þessa sérstöku íslensku hefð, sem mér persónulega þykir vænt um. Þetta er sérstaða okkar og við höfum örugglega flest lent í því að ræða um hana þegar við erum stödd annars staðar í heiminum og útskýra hana.

Sú hefð er gegnsæ. Þegar konur ganga í hjónaband hverfa þær ekki eins og gerist í sumum löndum. Það er erfitt að finna konur af því að þær skipta um nafn víða. En svo kemur þetta inn á réttlætismál, að sumir hafi meiri rétt en aðrir.

Nú er ég ekki í þeirri stöðu að hafa getað valið mér ættarnafn en ég get alveg trúað ykkur fyrir því að ég hef velt því fyrir mér hvernig það væri og hvað ég mundi þá velja mér. Eitt mjög sterkt nafn hefur komið upp í huga minn. Þá fer ég að velta þessu fyrir mér: Verður mér strítt á því? Kannski verður það tengt við vaxtarlag mitt, við geðslag mitt eða eitthvað í umhverfinu þar sem ég á heima. Þá mundi ég heita Þórunn Þverdal, það væri dálítið skemmtilegt að geta valið það.

En ég fagna þessu máli og ég hef haft gaman af þessari umræðu. Ég vona að við höldum áfram að ræða þetta þarfa mál.