143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir framsögu í þessu máli. Ástæða þess að ég freistast til að koma hér upp er að ég er íslenskufræðingur, fyrrverandi íslenskukennari í unglingadeild í mörg ár, og mér rann eiginlega blóðið til skyldunnar. Íslenskan er okkar mál og þess vegna fyrst og síðast þurfa nöfn að mínu mati að geta fallið að beygingarhefðinni. Við eigum að geta fallbeygt nöfn samkvæmt íslensku málkerfi.

Ég hef hins vegar oft velt fyrir mér að foreldrar gleyma að fallbeygja nöfnin saman áður en þau gefa börnum sínum eitt eða fleiri nöfn. Stundum er það þannig að börn hafa tvö nöfn og þegar þau eru fallbeygð hljóma þau skelfilega. Örugglega hafði þá enginn velt því fyrir sér í upphafi.

Til eru tvö falleg karlmannsnöfn, þau Leifur og Arnar. En svo er spurt: Kemurðu með Leif Arnar? Það er undir svona kringumstæðum sem mér finnst að einhver eigi að leiðbeina fólki þegar það velur falleg nöfn á börnin sín.

Um tíma var tíska að stúlkur hétu Mist og síðan komu nöfnin Mist Líf og Mist Eik. Fyrir gamlan og fyrrverandi íslenskukennara er þetta ekki alveg að gera sig, eins og börnin segja í dag. Ekki má lengur heita Erling, barnið verður að vera skírt Erlingur, en í stað þess að banna að skíra þessum nöfnum ætti frekar að vera hægt að leiðbeina fólki um það með hvaða hætti það velur nöfn á börnin sín sem þessi börn eiga síðan að bera í náinni framtíð.

Sjálf heiti ég Ragnheiður. Mér fannst það ekkert sérstakt þegar ég var krakki. Ef ég hefði getað ráðið því að skipta hefði ég kannski gert það, en mér finnst þetta mjög gott nafn í dag. Mér finnst nafnið mitt hljóma vel, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, en þegar ég var sex ára var það ekki gott. Á unglingsaldri var það frekar hallærislegt. Það er kannski frekar í þessa veru sem við ættum að velta fyrir okkur hvernig og hvar verður einhver stöð sem ákveður að þetta má eða má ekki.

Unglingur klippir á sig hanakamb og litar hann bláan. Hann gerir það kannski ekki fimmtugur, þó veit maður aldrei. Hann gæti alveg breytt um nafn með bláan hanakamb en hann hefði ekki þar með viljað hafa það nafn líka þegar hann er fimmtugur. Kannski eru þetta bara skemmtilegar pælingar, umhugsunarvert samt, og það verð ég að segja að stundum hefur mér þótt mannanafnanefnd taka ótrúlega sérkennilegar ákvarðanir um heimild í þessa nafnaskrá. Sumt af því hefur mér þótt hreint og klárt ónefni en ekki foreldrum þess barns sem sóttu um.

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að koma upp til að leggja áherslu á að það er kannski að ýmsu að huga, m.a.s. með þessi góðu, elskulegu nöfn sem við öll þekkjum og erum ekki í neinum vandræðum með að beygja þegar þau eru sett saman. Mig langar hins vegar að taka undir með þeim sem hafa nefnt þennan ráðherra sem yrði væntanlega kirkjumálaráðherra eða menntamálaráðherra — eða hvaða ráðherra ætti að úrskurða um hvort barn mætti heita þessu nafni eða ekki? Ég er sammála því sem hér hefur komið fram. Hvað mundi þá ráða för? Smekkur ráðherrans? Viðhorf hans til tungumálsins eða að hann þekkti kannski í æsku mann sem hét þessu nafni og þótti það ljótt — eða hvað réði för? Ef skjóta á máli til úrskurðar tel ég alltaf skynsamlegra að fleiri en einn ráði þar för.

Nálgunin hjá hv. frummælanda Óttari Proppé var hins vegar skemmtileg og hvernig hann nálgaðist málið út frá sínu eigin nafni þar sem hann ber ættarnafn og eiginnafnið hans er líka sérstakt. Mér finnst þetta þörf umræða og hið besta mál að nefndin fái þetta frumvarp til skoðunar og umræðu og þá er ég allt í einu komin að spurningunni: Hvert fer frumvarpið? Fer það til allsherjar- og menntamálanefndar? Er það þá menntamálahlutinn sem tekur það eða allsherjarnefndarhlutinn, eða fer það kannski bara til velferðarnefndar? Hvert fer slíkt mál í raun? Mannanafnanefnd er skipuð af hæstv. menntamálaráðherra sem tenging við tunguna og söguna og annað í þeim dúr þannig að væntanlega fer þetta frumvarp til allsherjar- og menntamálanefndar, en þá er eins og það sé hugsanlega beggja aðila innan þeirrar nefndar, hvort heldur er innanríkisráðuneytið annars vegar og menntamálaráðuneytið hins vegar, vegna þess að þó að börn séu ekki skírð heldur nefnd fer það í gegnum ákveðnar bækur í ákveðnum hlutum. Það er Þjóðskrá. Væntanlega heyrir hún undir allsherjarnefnd eða kannski bara efnahags- og viðskiptanefnd.

Virðulegi forseti. Þetta er skemmtilegt frumvarp. Það mun örugglega kalla á fjörugar umræður og margar og skrautlegar umsagnir þannig að það verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins í þeirri nefnd sem það fer til.