143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

fjárfesting í nýsköpun.

[15:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum og áratugum, held ég að megi segja, hefur verið bent á að ein skynsamlegasta fjárfesting sem hægt er að ráðast í fyrir þetta samfélag, og aðrar þjóðir hafa komist að sömu niðurstöðu og framkvæmt pólitíska stefnu í þeim anda, sé að setja pening í samkeppnissjóði, í t.d. Tækniþróunarsjóð, rannsóknasjóði, Kvikmyndasjóð. Þetta eru sjóðir sem byggja á því að fólk kemur líka með fjármagn annars staðar frá og reynslan til dæmis af Tækniþróunarsjóði er sú að það tekur fyrirtæki frekar skamman tíma að borga til baka framlag ríkisins í gegnum skatta og gjöld og þá jafnvel margfalt.

Öll þessi umræða innan tækni- og hugverkageirans og líka skapandi greina, tónlistar, hönnunar og myndlistar, og í raun og veru einnig innan ferðamennskunnar, öll umræðan, þessi greining á sóknarfærum leiddi til þess að blásið var til fjárfestingaráætlunar á síðasta kjörtímabili. Hún var vissulega margþætt en þetta er sá hluti hennar sem ég tel mikilvægast að verja. Það er fjárfestingin í nýsköpun, tækni og þróun á þeim grunni að þetta er viðurkennd leið til að skapa fjölbreytt atvinnulíf, skapa tekjur fyrir ríkissjóð í náinni framtíð. Nú bregður svo við að búið er að slá af alla þessa, ég held ég leyfi mér að segja alla þessa, aukningu, nánast alla. Hún skipti miklu máli. Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra sem fer að flestu leyti með þennan málaflokk: Er þetta stefnubreyting sem henni hugnast?