143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

leiðrétting verðtryggðra námslána.

[15:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar vextina er það alveg rétt að þeir voru settir á á sínum tíma m.a. til að tryggja það að lánasjóðurinn stæði undir sér og að með honum væri hægt að tryggja sem best jafnrétti til náms.

Það er alveg rétt að menn munu þurfa að halda áfram af borga af námslánum sínum rétt eins og öðrum lánum sem ekki falla niður á ákveðnu aldursskeiði. Það er ekkert öðruvísi með þessi lán en önnur hvað varðar lánasjóðinn, ef hann fellir niður verðbætur og það lendir á honum sjálfum þá mun það draga úr möguleikum hans til að sinna hlutverki sínu gagnvart þeim sem eiga eftir að fá lán úr þeim sjóði.

Ég vona að það hafi ekki valdið misskilningi en ég vil þá bara leiðrétta það. Það hefði auðvitað þurft þá, augljóslega — og ég er alveg klár á því að þeir sem unnu vinnuna varðandi niðurfærslu lánanna skoðuðu alla þætti málsins, um hvaða lán væri að ræða o.s.frv. Niðurstaðan var sú að hún yrði bundin við húsnæðislán, lán sem hefðu húsnæði að veði og væru verðtryggð. Það er heildaraðgerðin. (Forseti hringir.) Hún breytir ekki öllum heiminum hvað það varðar að það er fullt af öðrum lánum sem verða þá ekki leiðrétt, (Forseti hringir.) það er augljóst.