143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

dýraeftirlit.

[15:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég tel mig skilja hann sem svo að ekki sé búið að slá þetta út af borðinu, þ.e. ef hann er að fara að eiga hér viðræður við, ef ég heyrði rétt, sveitarfélögin á morgun um þessi mál.

Ef komið er á ráðningarsamband, burt séð frá því að ekki sé búið að skrifa undir, hlýtur ríkið að geta búist við einhverjum kostnaði, jafnvel málsókn eða einhverju slíku, átt það á hættu. Ef ég hef tekið rétt eftir hafa sex mánuðir til viðbótar ekki dugað til til þess að ná samningum við sveitarfélögin. Ég spyr: Hver er ágreiningurinn? Hversu mikill er hann, um þessar fjárhæðir? Það er athyglisvert að menn nái ekki saman. Fella sveitarfélögin þetta þá niður í fjárhagsáætlunum sínum ef ekki næst einhver samræða um þetta?

Er það sem sagt rétt að ekki sé búið að slá þetta út af borðinu?