143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

kvótasetning í landbúnaði.

[15:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar höfum búið við kvótastýrða mjólkurframleiðslu í mjög langan tíma. Það á sér upphaf fyrir löngu síðan, þ.e. vegna offramleiðslu og nauðsyn þess að takast á við fyrirsjáanlegt afkomuhrun kúabænda. Það var þá. Síðan hafa liðið nokkrir áratugir og margt hefur breyst á þeim tíma. Við höfum til dæmis horfið frá kvótastýringu í sauðfjárbúskap sem var innleidd á svipuðum tíma. Reyndar er það þannig núna að mjólkurframleiðslan er eina kvótastýrða búgreinin á Íslandi. Framsal á mjólkurkvóta var síðan leyft og er óhætt að segja að stórkostleg breyting hafi orðið. Ég ætla að meðalkúabúið hafi farið úr 50–60 þúsund lítra framleiðslu í um 200 þúsund að meðaltali í dag.

Núna hefur Mjólkursamsalan keypt alla mjólk fyrir árið 2013 og komið með yfirlýsingu um að hún vilji kaupa alla framleiðslu fyrir árið 2014. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki kominn tími til að ganga hraustlega til verks og afnema þetta kvótakerfi? Er einhver ástæða fyrir því að við erum með kvótakerfi í mjólkurbúskap? Ég vil biðja hæstv. ráðherra að svara þessari spurningu játandi.