143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

kvótasetning í landbúnaði.

[15:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða fyrirspurn. Hún varpar einmitt ljósi á þá skemmtilegu þróun sem hefur orðið í mjólkurframleiðslunni á Íslandi eða reyndar í landbúnaðinum í heild sinni. Þar eru ýmis sóknarfæri sem felast meðal annars í breytingum á neyslumynstri þjóðarinnar, fyrst varð veruleg aukning á próteinneyslu sem hefur aukið skyrneyslu og svo á síðustu árum hefur orðið þróun í aukningu á fituneyslu sem síðan á haustdögum hefur sprengt utan af sér allar spár og er með yfir 20% aukningu milli ára, frá september til september, október til október, nóvember til nóvember, sem hefur orðið til þess, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að bændur geta í raun og veru framleitt allt sem þeir vilja og kvótinn virkar ekki lengur sem aðhaldsaðgerð til að stemma stigu við framleiðslu á innanlandsmarkaði eins og hann var hugsaður.

Það er margt sem bendir til þess að kvótakerfið í sjálfu sér, vegna þess að það er auðvitað kerfi til að halda aftur af framleiðslu, verki hemjandi á þann framleiðsluaukningarhvata sem þyrfti að vera, þ.e. að menn framleiði ekki nóg. Þess vegna hef ég rætt það við meðal annars Bændasamtökin og Landssamband kúabænda í haust að í anda stjórnarsáttmálans, þar sem við ætlum að hefja sókn í matvælaframleiðslu, verulega aukinni matvælaframleiðslu innan lands, bæði á innanlandsmarkaði en einnig til útflutnings, verðum við að sjálfsögðu að taka upp búvörusamningana sem hafa verið endurnýjaðir að mestu óbreyttir frá 2004 og 2005 og í þeirri endurskoðun hlýtur að koma til greina að velta fyrir sér hvort kvótakerfið eins og það er nú eigi rétt á sér til framtíðar.