143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hefja þessa umræðu. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. þm. Róberts Marshalls, þessar ákvarðanir virðast vera tilviljunarkenndar og erfitt er að átta sig á því hvort hlutverk og meginmarkmið Ríkisútvarpsins breytast í kjölfarið. Ég held að við verðum samt að horfast í augu við sjálf okkur hér á Alþingi og fara aðeins aftur í tímann. Ég vil staldra við ákvörðun sem var tekin árið 2007, áður en ég tók sæti á Alþingi, um að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag. Það var gert með því markmiði að útvarpsstjóri fengi þá meiri völd til að setja og móta stefnu og hugsanlega ráða og reka starfsfólk. En fórum við hugsanlega of langt í því að veita honum það vald að móta það hlutverk sem við flest erum sammála um að Ríkisútvarpið þurfi að standa fyrir?

Ég gagnrýndi til dæmis mjög harkalega þann niðurskurð sem átti sér stað, mig minnir að það hafi verið á árinu 2007 eða 2008, þegar hinar svæðisbundnu stöðvar voru lagðar niður. Þar með held ég að hið svokallaða landsbyggðarhlutverk hafi minnkað mjög mikið og sjónvarpið eða útvarpið hafi kannski ekki sömu burði til að rækja það og ég teldi nauðsynlegt. Ég held að þetta séu spurningarnar sem við þurfum að velta fyrir okkur.

Aðeins var komið inn á markaða tekjustofna og þá ákvörðun sem var tekin síðasta vor um að allir fjármunirnir mundu renna til Ríkisútvarpsins. Mér fannst það ankannalegt, ég verð að viðurkenna það, að heyra fyrrverandi formann fjárlaganefndar lýsa yfir þeim vilja að allir þessir stofnar færu óskertir til Ríkisútvarpsins á meðan samstaða var um það í nefndinni að breyta fyrirkomulaginu um hina mörkuðu tekjustofna þannig að ein ríkisstofnun mundi ekki vaxa meðan verið væri að (Forseti hringir.) skera niður í mörgum öðrum.

Ég vil samt (Forseti hringir.) segja: Það er okkar hlutverk að standa vörð um Ríkisútvarpið og gæta þess að það hafi alla burði til þess að rækja sitt hlutverk í framtíðinni.