143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að velta upp þeirri spurningu hvort og af hverju það er löglegt að taka útvarpsgjaldið og yfirfæra það yfir á aðra tekjustofna. Mér fannst það mjög skringilegt þegar ég komst að því fyrst að það væri þannig að maður væri að borga samviskusamlega og hefði ekkert val um að greiða þennan nefskatt til RÚV — og maður sætti sig við það út af því að það var til RÚV, út af þeirri samfélagslegu þjónustu sem Ríkisútvarpinu ber að inna af hendi.

Mig langaði í kjölfar þessarar umræðu að skora á þingið, fjárlögin eru hér hjá þinginu: Hvað ætlum við þingmenn að gera? Valdið er okkar. Við getum tryggt að útvarpsgjaldið renni óskipt þangað sem það á að fara.

Mig langar líka að spyrja hvort einhver hafi heyrt eitthvað um stefnu útvarpsstjóra í málefnum Ríkisútvarpsins. Ég verð að segja að mér finnst mjög sorglegt að nánast sé verið að leggja Rás 1 niður. Það sem mér finnst enn sorglegra er að birst hafa í fjölmiðlum samskipti sem hafa átt sér stað; ég ætla að fara yfir það í síðara slottinu til að ræða um þessi málefni. En mér finnst svo sorglegt hvernig komið hefur verið fram við starfsmenn Ríkisútvarpsins. Mig langaði að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvað honum finnist um þær aðgerðir, því að þær eru í senn ónærgætnar og hreinlega ómanneskjulegar.