143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að vekja máls á þessari umræðu. Öll erum við alin upp við að hlusta á RÚV, að minnsta kosti var það daglegt brauð á mínu heimili, og öllum þykir okkur vænt um RÚV. Við erum hins vegar ósammála, heyrist mér, um það hvernig framtíðin eigi að vera. Það er alveg ljóst að við þurfum að taka hér umræðu um það hvernig við sjáum hlutverk RÚV þróast og hver framtíðin á að vera.

Ég er á þeirri skoðun að við eigum, í rekstri RÚV, að einbeita okkur að þeim grundvallarmarkmiðum sem sett eru með því að reka fjölmiðil á kostnað skattgreiðenda, fjölmiðil sem er nú á stórum sviðum í samkeppni við einkaaðila. Það þarf að fara varlega á þessari braut og ég held að menn þurfi aðeins að hugsa sig um þegar þeir horfa á þá miklu fjármuni sem stofnunin hefur þó yfir að ráða í samhengi við þá niðurskurðarkröfu sem hér er farið fram með.

Það liggur einhvern veginn í orðum sumra hv. þingmanna að engu líkara sé en að við séum að leggja þessa stofnun niður. Það er ekki svo. Enn renna talsverðir fjármunir úr ríkissjóði þarna inn, það verður að fara vel með þá. Við erum hér í þeirri stóru vegferð að reyna að ná tökum á rekstri ríkissjóðs. Enginn er undanskilinn í þeirri vegferð, engin ríkisstofnun er undanskilin í þeirri vegferð, þannig eru hlutirnir einfaldlega.

Ef við ætlum okkur að ná árangri verðum við að taka ákvarðanir sem í sumum tilfellum eru erfiðar. Og vegna þess að hér var talað um það, af hálfu þess þingmanns sem talaði á undan mér, að ekki væri rétt að vera að horfa mikið á fortíðina, þá er ekki hægt annað en að benda á að það er holur hljómur í þeim málflutningi sem hér hefur komið fram — meðal annars hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni sem áður var formaður fjárlaganefndar og sat í síðustu ríkisstjórn — að gagnrýna það hvernig við erum að fara inn í þetta, þegar síðasta ríkisstjórn skar niður til þessarar sömu stofnunar og ætlaðist til þess að hún bætti sér það upp á auglýsingamarkaði (Forseti hringir.) í samkeppni við einkaaðila. Það er hugmyndafræði sem hugnast mér alls ekki og ég tel að (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) ekki eigi að draga til baka (Forseti hringir.) þessar lækkanir á framlögum til stofnunarinnar.