143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[16:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það þurfti engar reiknikúnstir til til að komast að þeirri niðurstöðu sem ég kynnti hér áðan, tölurnar sem ég fór yfir sýna nákvæmlega hvert ríkisframlagið er á árunum 2008–2009, sem eru 4,2 milljarðar á núvirði, og síðan 2011–2012, sem eru 3,3 milljarðar á núvirði. Þetta er fengið úr ársreikningum Ríkisútvarpsins og ég held að það sé óumdeilanlegt — þegar betur er að gáð sjá menn nákvæmlega hvernig þessar tölur eru fengnar og þetta er staðreyndin.

Það sem gerðist var það að Ríkisútvarpið fór meira inn á auglýsingamarkaðinn. Það gerðist í tíð síðustu ríkisstjórnar og ég tel rétt að vekja athygli á því. Það hafði auðvitað veruleg áhrif á rekstur þessarar stofnunar.

Það er alveg rétt, sem hér var sagt, þjónustusamningurinn býr ekki til peninga. En, virðulegi forseti, það eru ekki til peningar. Þegar ríkissjóður stefnir í að vera rekinn með 25 milljarða halla á þessu ári og við erum að reyna að bjarga okkur út úr þeirri stöðu, þegar ætlað var að hann yrði í jafnvægi á þessum tíma, þá þarf að grípa til aðgerða og þær eru margar hverjar sársaukafullar.

Þegar menn héldu að þeir gætu sett um 715 milljónir aukalega inn í Ríkisútvarpið, til að mæta þeim niðurskurði sem orðið hafði á ríkisframlaginu í tíð síðustu ríkisstjórnar, reiknuðu menn með því að við værum komin með ríkisfjármálin í jafnvægi. En þegar sú mynd blasir síðan við að hallinn er um 25 milljarðar á þessu ári, sem menn áætla, þá verða menn að grípa til ráðstafana.

Staðan er þá sú að Ríkisútvarpið sem hafði farið í auknum mæli inn á auglýsingamarkaðinn — með lögum hafði það verið dregið til baka að nokkru, og var ákveðið að láta þá ráðstöfun standa áfram að mestu leyti. En það var sagt: Ekki er hægt að seilast dýpra í vasa almennings hvað þetta varðar. Þess vegna verður Ríkisútvarpið að fást við þennan niðurskurð. En ég ítreka: En þegar horft er á þá fjármuni sem til staðar eru og þeir settir í samhengi við aðra listastarfsemi í landinu, eins og ég gerði hér í ræðu minni, má ljóst vera að Ríkisútvarpið er í öllum færum með að klára þau verkefni sem því er ætlað samkvæmt lögum.