143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Vinstri grænna telur að hvorki raforkulögin né Evróputilskipunin sem þau byggja á taki mið af íslenskum veruleika. Þar sem ekki er í raun virkur samkeppnismarkaður af þeim sökum hefðum við ekki þurft að uppfylla þessa EES-raforkutilskipun á sínum tíma og hefðum átt að sækja um undanþágur miðað við íslenskar aðstæður.

Þar sem önnur orkufyrirtæki í landinu hafa nú þegar uppfyllt viðkomandi Evróputilskipun um aðskilnað framleiðslu og dreifingu á orku hefur verið þessi mikla krafa á uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur, en mikil andstaða hefur verið af eigendanefnd Orkuveitunnar. Við teljum að innleiðingin hafi verið mikið óheillaspor í upphafi og viljum skoða þetta mál með það í huga hvort hægt sé að endurskoða hana og skoðum það að flytja breytingartillögu þess efnis þegar málið fer inn í nefnd við 3. umr.

Við sitjum hjá, þingflokkur Vinstri grænna, í þessu máli.