143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni.

206. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Það er svolítið sérstakt „mix-up“ hérna að forseti segi að málið sé gagnvart kínversku þjóðinni því að Tíbetar eru svo sannarlega ekki kínverskir. En þetta er sem sagt tillaga til þingsályktunar um framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni.

Með mér á þessari þingsályktunartillögu eru hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Elín Hirst, Svandís Svavarsdóttir, Óttarr Proppé, Margrét Gauja Magnúsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Brynhildur Pétursdóttir og Páll Valur Björnsson. Vil ég þakka þeim öllum fyrir að vera með á tillögu sem mér finnst afar mikilvæg, sérstaklega í ljósi þess að við erum nú að taka upp tvíhliða fríverslunarsamning við kínversku kommúnistastjórnina.

Alþingi ályktar að lýsa yfir þungum áhyggjum af vaxandi ofbeldi og kúgun kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni og hvetur til að endurmenntunarþvingunum verði hætt tafarlaust. Þvinganirnar hafa meðal annars leitt til þess að 122 Tíbetar hið minnsta hafa kveikt í sér í örvæntingu frá því í mars 2011, að því er skjalfest hefur verið.

Alþingi fordæmir vaxandi hörku gagnvart friðsamlegum mótmælum í Tíbet undanfarna mánuði þar sem fjölmargir mótmælendur hafa verið myrtir og særðir lífshættulega.

Alþingi hvetur kínversk stjórnvöld til að aflétta herkví í Tíbet og til að hleypa alþjóðafjölmiðlum og alþjóðamannréttindasamtökum hindrunarlaust og án afskipta inn í landið.

Alþingi hvetur kínversk stjórnvöld til að standa ekki í vegi fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar geti ákveðið að senda sendinefnd til að kanna mannréttindabrot í Tíbet. Jafnframt hvetur Alþingi kínversk yfirvöld til að hefja opinberar friðar- og samningsviðræður við sérstaka sendinefnd Dalai Lama.

Alþingi hvetur íslensk stjórnvöld til að bjóða að vettvangur friðarviðræðnanna verði hérlendis, t.d. í Höfða.

Þessar kröfur eru ekki háleitar, þetta eru eðlilegar kröfur. Þetta eru eðlileg tilmæli og með ólíkindum að við höfum ekki beitt okkur frekar fyrir því að því gjörningaveðri sem hefur verið yfir tíbesku þjóðinni síðan kínversk yfirvöld réðust þar inn slotaði. Það er ótrúlegt hve lítið hefur verið fjallað um það bæði hérlendis og erlendis. Ég man þegar ég vakti fyrst athygli á því og mótmælti því sem var að gerast í Tíbet í kringum Ólympíuleikana þá gerði ég leit í helstu fjölmiðlum að fréttum sem tengdust Tíbet. Ég fann út að það hafði nánast ekkert verið fjallað um Tíbet fyrr en ég sem einstaklingur fór að beita mér fyrir því. Sem betur fer varð það til þess að mjög margir aðrir fóru að beita sér fyrir því og þá fyrst vissum við eitthvað um þessa þjóð, vissum eitthvað um hvað hefur gerst þar og hvað er að gerast.

Það vildi svo til að stuttu eftir að ég kom fyrst inn á Alþingi árið 2009 gerðust þau stórtíðindi hérlendis að Dalai Lama kom til Íslands. Því miður vildi hvorki forseti landsins né þáverandi forsætisráðherra hitta Dalai Lama. Það átti heldur ekki einu sinni að taka á móti honum sem þjóðhöfðingja heldur senda hann með leigubíl frá Keflavíkurflugvelli og niður í bæ. Þannig voru móttökurnar. Ég vona að núverandi ríkisstjórn sýni þessum málaflokki meiri áhuga, sér í lagi út af því að verið er að leggja til að við undirritum samninga við kínversku kommúnistastjórnina í janúar.

Því vil ég gera þingmönnum það ljóst að þeirri óskhyggju að smáríkið Ísland geti haft einhver áhrif með þessum tvíhliða viðskiptasamningi á þau óhugnanlegu mannréttindabrot sem hafa átt sér stað í Tíbet, gagnvart bæði kínverskum og tíbeskum ríkisborgurum, linni. Ef við gerum ekki neitt til að sýna að okkur er ekki sama erum við í raun að kvitta undir áframhaldandi mannréttindabrot. Það er bara þannig. Þess vegna finnst mér sérstakt ánægjuefni að þingmenn úr öllum flokkum, nema reyndar Framsókn, séu með á þessari þingsályktunartillögu. Mér finnst það gefa mér smávon.

Ég ætla að lesa hér greinargerðina með tillögunni:

Fjölmörg þjóðþing hafa ályktað um síversnandi ástand í Tíbet, þar á meðal bandaríska, ítalska og japanska þingið, svo og Evrópuþingið. Þá hafa 12 handhafar friðarverðlauna Nóbels, þar á meðal Desmond M. Tutu og Lech Walesa, sent frá sér bréf til forseta kínverska alþýðulýðveldisins þar sem hvatt er til þess að friðarviðræðunum við fulltrúa tíbesku þjóðarinnar verði haldið áfram.

Ég vek athygli á því að þetta átak var fyrir ári og enn hefur ekki neitt gerst. Kínversk yfirvöld fást ekki til þess að ræða við sérstaka sendinefnd Dalai Lama til að finna friðsamlega lausn á því sem er að gerast í Tíbet. Ég verð að segja það, og ég hef fylgst náið með, að ástandið þar fer versnandi dag frá degi.

Herseta kínverskra yfirvalda í Tíbet hefur staðið í yfir sextíu ár og á þeim tíma hefur ríkisstjórn alþýðulýðveldisins Kína innleitt miskunnarlausa stefnu aðlögunar og kúgunar. Mannréttindi eru markvisst fótum troðin gagnvart Tíbetum; þeir eru sviptir öllum rétti til pólitísks frelsis, að tala sitt eigið tungumál og iðka þjóðmenningu sína. Ekkert raunverulegt trúfrelsi er í Tíbet. Það kostar til að mynda fangelsisvist að eiga ljósmynd af Dalai Lama. Tíbetum er kerfisbundið haldið frá atvinnustarfsemi, atvinnutækifærum og aðgengi að menntun vegna þjóðernis. Tíbeska þjóðin vex ekki eins og aðrar þjóðir heldur hefur fjöldi Tíbeta staðið í stað um langa hríð. Tíbeska þjóðin er orðin að minni hluta í sínu eigin landi. Eina leiðin til að viðhalda þjóðmenningu þessarar merku þjóðar er í útlegð. En blæbrigði tungumálsins, sögur og söngvar fjara út dag frá degi.

Forseti. Flutningsmenn hafa áhyggjur af grófum mannréttindabrotum gagnvart Tíbetum, eins og þvinguðum ófrjósemisaðgerðum á tíbeskum konum, nauðungarflutningum hirðingja af hjarðlandi í einangrunarbúðir, kerfisbundinni afneitun á rétti munka og nunna til að iðka trú sína án afskipta, pyndingum og morðum á pólitískum föngum. Brýnt er að Sameinuðu þjóðirnar sendi sérstaka sendinefnd til Tíbets til að kanna meðal annars hvað varð um þá sem hurfu í tengslum við handtökur á þátttakendum í mótmælaaðgerðum árið 2008.

Sjálfsíkveikjurnar sem eru því miður að aukast sýna gríðarlega örvæntingu. Fram hefur komið ítrekað að litið er á þær sem einu leiðina til að vekja athygli á síversnandi ástandinu og algeru fálæti heimsbyggðarinnar gagnvart hljóðlátri en markvissri útrýmingu þjóðar og þjóðareinkenna. Í rúm sextíu ár hefur heimurinn litið fram hjá mannréttindabrotum í Tíbet gagnvart tíbesku þjóðinni.

Ekki verður annað ráðið en að kínversk yfirvöld standi fyrir skipulegri útrýmingu á tíbesku þjóðinni og menningu hennar. Í því máli telja flutningsmenn að Alþingi beri að taka afstöðu, sér í lagi vegna þess að hingað koma í heimsóknir æðstu embættismenn kínverska alþýðulýðveldisins með reglulegu millibili.

Við Íslendingar höfum siðferðislega skyldu samkvæmt fríverslunarsamningi okkar við Kína, sem mun taka gildi snemma árs 2014, að benda kínverskum yfirvöldum á að við sættum okkur ekki við mannréttindabrot af því tagi sem rakin hafa verið í greinargerðinni.