143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

efling skógræktar sem atvinnuvegar.

211. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar og sameiningu stjórnsýslueininga á sviði skógræktar og landgræðslu. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Ásmundur Friðriksson og Höskuldur Þórhallsson.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að efla skógrækt á Íslandi sem arðsaman atvinnuveg með því að:

a. stórefla hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf í skógrækt með áherslu á framleiðslu viðarafurða, framleiðni og arðsama skógrækt,

b. færa Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt í eina stjórnsýslueiningu,

c. semja frumvarp að nýjum samræmdum lögum um skógrækt og landgræðslu,

d. móta starfsumhverfi með rammaáætlun til þriggja ára til eflingar skógrækt með þátttöku bænda, annarra landeigenda og sérstakra skógræktarsjóða.

Þessi tillaga, virðulegi forseti, er í fullu samræmi við það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum, sérstaklega um skógrækt, en þar segir m.a. með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að beita hvetjandi aðgerðum í efnahagslífinu til að ýta undir græna starfsemi. Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. Hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis. Brýnt er að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda, bæði með því að draga úr beinni losun af mannavöldum og með því að stórauka landgræðslu, skógrækt og aðra eflingu gróðurlenda.“

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu segir:

Líkt og orkan, fiskurinn í sjónum og fegurð náttúrunnar eru vel þekktar auðlindir hefur jarðvegur, gróður og skógur ekki síður skapað þjóðinni lífsgæði og efnahagslegt sjálfstæði.

Í því skyni að þessar mikilvægu auðlindir verði áfram tryggðar og jafnframt efldar er nauðsynlegt að efla og styrkja stjórnkerfi, leita nýrra leiða við fjármögnun verkefna, virkja efnahagslega hvata og horfa til þess að efla búsetu og byggð.

Mikil og vaxandi spurn er eftir viðarafurðum á Íslandi. Til að innlend framleiðsla geti meðal annars mætt þeirri eftirspurn þarf að fara nýjar leiðir í skógrækt sem skila afurðum fyrr og með arðsemi sem er ásættanleg á almennum markaði. Á sama tíma þarf að efla hnitmiðuð rannsóknar- og þróunarverkefni sem styrkja bakland slíkra verkefna.

Nauðsynlegt er að kanna og laða að fjárfestingar m.a. sjóða, einstaklinga og félaga fyrir eigin reikning í arðsamri skógrækt á Íslandi, en slík fjárfesting er vel þekkt erlendis.

Þrennt hefur öðru fremur hindrað fjárfestingu einkaaðila í nytjaskógrækt hér á landi: a) langur biðtími frá fjárfestingu til tekjugæfrar nýtingar, b) óvissa um markað fyrir afurðir, c) vantrú á að skógrækt í norðlægu, skóglausu landi geti skilað arði.

Til að hætta fé sínu í nýrri fjárfestingarleið með langan biðtíma fram að fyrstu tekjum þarf að skapa, a.m.k. tímabundið, skammtímahvata fyrir fjárfesta. Skattaívilnun þar sem fjárfesting í viðurkenndum skógræktarsjóði væri t.d. frádráttarbær frá skattstofni er líkleg til að mynda þann skammtímaávinning. Síðar þegar meiri reynsla hefur skapast á markaði mætti afnema þennan sérstaka fjárfestingarhvata.

Langtímaleiga á landi til skógræktar getur styrkt byggð í dreifbýli og dregið er fram líða stundir úr þörf fyrir framleiðslustyrkjum í landbúnaði, þar með talið í skógrækt. Slíkt eflir skilyrði til atvinnuuppbyggingar í dreifbýli, þar sem atvinna við ræktun, umhirðu og nýtingu skóga verður fyrst og fremst til í dreifbýli.

Önnur leið sem hentar betur fjárfestingu lífeyrissjóða er að ríkið bjóði gróðursetningarstyrk sem væri föst krónutala á hektara.

Nauðsynlegt er að skipulag og stjórnsýsla málaflokksins verði samræmd. Með þeim hætti má ná fram betri og skilvirkari árangri í skógrækt og landgræðslu. Jafnframt er nauðsynlegt að á sama tíma verði sett ný lög um skógrækt og landgræðslu sem tryggi bakland og lagalegan grunn málaflokksins og leggi um leið grunn að nýrri sókn í skógrækt og landgræðslu.

Upphaflega var málaflokkurinn hér á landi undir sömu stjórn eða frá árinu 1907. Málaflokkar skógræktar og landgræðslu eru náskyldir og víða erlendis og í nágrannalöndum undir sömu stjórnsýslustofnun.

Sameining stofnana og verkefna hefur mikla hagræðingu í för með sér og má meðal annars benda á sameiningu starfsstöðva og rekstrarhagræðingu í yfirstjórn. Auk þess er margt sem gæti um leið leitt til betri skilvirkni, t.d. þegar horft er til gagnaöflunar, rannsókna, samnýtingar tækjakosts, búnaðar o.fl.

Landgæðum hefur hrakað mikið hér á landi frá landnámi vegna tíðarfars, náttúruhamfara, svo sem eldgosa og ósjálfbærrar landnýtingar. Eyðing skóga á Íslandi er einhver sú mesta sem þekkist í nokkru landi, en talið er að um 97% upprunalegu skóganna hafi eyðst frá landnámi. Nær samfelld gróðurþekja sem huldi landið hefur rýrnað til mikilla muna með neikvæðum afleiðingum fyrir náttúru landsins og lífsskilyrði þjóðarinnar. Gróður- og jarðvegseyðing hefur rýrt frjósemi lands og haft slæm áhrif á vatnsmiðlun.

Á árinu 1997 lauk heildarúttekt á jarðvegsrofi á Íslandi, sem unnin var af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins. Niðurstöður hennar sýndu umtalsvert eða alvarlegt jarðvegsástand á 52% landsins þegar hæstu fjöll, jöklar, ár og vötn voru undanskilin. Niðurstöðurnar undirstrika að enn er mikið verk fyrir höndum við stöðvun jarðvegseyðingar og að ástandið er hvorki eðlilegt né í samræmi við umhverfisskilyrði.

Krefjandi verkefni kalla á styrka stjórnsýslu sem skilar öflugu starfi. Með því að sameina krafta þessara stofnana verður hægt að takast á við þau miklu verkefni sem blasa við.

Unnið hefur verið að því undanfarin ár að endurskoða lög um landgræðslu og skógrækt. Nauðsynlegt er að nýta þá vinnu eins og hægt er, auk þess sem gætt verði samræmis við aðra landnýtingu, landbúnað, náttúruvernd og ferðaþjónustu, auk annarra laga og reglugerða.

Þrátt fyrir að lagt sé til í þingsályktunartillögunni að stjórnskipulagi sé breytt er áhersla lögð á að verkefni landshlutaverkefnanna skógrækt verði efld. Talið er að skógrækt á vegum landshlutaverkefnanna skapi atvinnutækifæri í dreifbýli og byggi upp skógarauðlind sem treysti í senn byggð og fjölbreytni atvinnulífs.

Með tilkomu landshlutaverkefna í skógrækt hefur skógrækt á lögbýlum aukist undanfarin ár. Landshlutaverkefnin eru fimm talsins eins og áður var drepið á og starfa sjálfstætt. Skógræktarverkefnin eru hvert og eitt með eigin stjórn sem ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur.

Tilkoma þessara verkefna á rætur að rekja til ársins 1970 þegar samþykkt voru lög um Fljótsdalsáætlun með það að markmiði að rækta skóg í samvinnu við bændur á nokkrum jörðum í Fljótsdal.

Fjárveitingar til skógræktar hafa verið skornar niður á undanförnum árum um liðlega 40% að raunvirði og á það jafnt við um landshlutaverkefni í skógrækt, Skógrækt ríkisins og aðra skógræktaraðila. Í 1. gr. laga um landshlutaverkefni segir: „Í því skyni að skapa skógarauðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf, skal eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum hverju sinni veita fé til verkefna í skógrækt sem bundin eru við sérstaka landshluta. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli.“ 5% af landi neðan 400 m hæðar yfir sjó eru samtals 214.000 hektarar. Árið 2010 voru 576 skógarbændur með samning við landshlutaverkefni í skógrækt um 48.100 hektara lands. Þá var búið að gróðursetja í 18.400 hektara af þessu landi. Byggðamarkmið verkefnanna hafa náðst og nánast öll framleiðsla og vinna við skógræktina er í hinum dreifðu byggðum. Atvinnusköpun í landshlutaverkefnum í skógrækt fyrir árin 2001–2010 hafa verið metin og á þessu tímabili voru þau á ári hverju að meðaltali 81 launað ársverk auk um 50 óbeinna ársverka í nærsamfélaginu.

Með meiri fjárveitingum mun ganga hraðar að fylla í ógróðursett skógræktarsvæði og um leið að tryggja meiri viðarafurðir um og upp úr miðri öldinni. Þá er nauðsynlegt að samfara auknum fjármunum sem hið opinbera leggur til eflingar skógræktar verði gerðar enn ríkari kröfur um faglega uppbyggingu í greininni. Skal meðal annars fara fram sérstakt landsvæðamat á landi til skógræktar, þar sem arðsemismat verður lagt til grundvallar staðarvali og fjárveitingum.

Til þessa hefur skógrækt nánast alfarið verið fjármögnuð með framlögum ríkis og fáeinna sveitarfélaga. Til að mæta innlendri spurn eftir iðnviði þarf nýja fjármögnun sem ekki hvílir á skatttekjum og ræktunaraðferðir sem skila viðarafurðum fyrr og í meira mæli en hefðbundin nytjaskógrækt.

Þrátt fyrir hátt markaðsverð á landi kynnu landeigendur að vilja leigja land sitt að hluta eða allt til skógræktarsjóðs sem greiddi fasta árlega leigu. Þessir leigusamningar yrðu að vera til langs tíma, t.d. til 50 ára eða lengur.

Hraða þarf endurreisn skógarauðlindar á Íslandi í þágu lands og þjóðar. Samkvæmt skógræktarstefnu sem gefin var út og kynnt í febrúarmánuði 2013 er markmiðið að tífalda þekju skóga fyrir aldamótin 2100 þannig að skógar Íslands vaxi úr því að vera um 1,2% í a.m.k. 12% af flatarmáli Íslands. Í stefnunni er áhersla lögð á að auka skógrækt þar sem viðarnytjar eru meðal markmiða og að tryggja að umfang, framleiðsla og gæði skógarauðlindarinnar geti staðið undir arðbærum nytjum. Ná skuli sem mestum ávinningi af stækkandi skógarauðlind Íslands á sjálfbæran hátt, ýta undir þróun úrvinnsluiðnaðar og samþætta skógrækt öðrum landnýtingarkostum og atvinnugreinum.

Í skógræktarstefnunni er einnig fjallað um nauðsyn þess að efla rannsóknir og þróunarstarf í skógrækt. Í sömu stefnu er einnig fjallað um „Landsáætlun í skógrækt“ þar sem fjallað verði um: a) rannsóknir á öllum sviðum skógræktar, b) menntun á sviði skógfræði, c) ráðgjöf til skógræktenda og aðra miðlun þekkingar, d) hvata til aukinnar skógræktar, þar með talið fjárhagslega, félagslega og umhverfislega, e) þjónustu opinberra aðila við skógræktendur, f) nauðsynlegar lagabreytingar, g) mælanleg markmið, vísa, vöktun og mat á árangri.

Með vísan til þeirra þátta sem vísað er til í tillögunni og greinargerð er ljóst að tækifæri til fjölþættrar atvinnuuppbyggingar í skógrækt og landgræðslu eru mikil. Mikil þekking liggur nú þegar fyrir hjá þeim stofnunum sem unnið hafa að þessum málaflokkum um áratugaskeið. Ekki er að efa að sá mikli mannauður og sú þekking muni nýtast afar vel í öflugri landnýtingar- og landbótastofnun sem hér er lagt til að taki við hlutverki framangreindra stofnana. Það er því afar mikilvægt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum svo hraða megi uppbyggingu í greininni og leggja þannig grunn að atvinnuvegi sem í náinni framtíð kann að verða ein af kjarnastoðum íslensks atvinnulífs.

Virðulegi forseti. Ég tel að mörg tækifæri og mikil liggi í því að stíga þau skref sem lögð eru til í þessari þingsályktunartillögu. Ég held að hún geti orðið til eflingar atvinnulífi, eflingar og styrkingar í hinum dreifðu byggðum landsins. Þetta mál getur líka gefið mikil tækifæri í landbúnaði, til þess að vaxa. Margir hafa ekki trú á því að aukin skógrækt á Íslandi geti orðið að alvöruatvinnugrein, þess sé langt að bíða á svo norðlægu slóðum að greinin geti gefið af sér þau verðmæti sem þarf til að standa undir sjálfbærni, en við höfum séð það á undanförnum árum og með þeirri eftirspurn sem hefur í vaxandi mæli aukist hér innan lands að þetta er raunhæft verkefni.

Að þessari umræðu lokinni, virðulegi forseti, legg ég til að málið fari til hv. atvinnuveganefndar.